144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

beiðni um komu ráðherra á fund atvinnuveganefndar.

[15:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær athugasemdir sem hér eru gerðar. Ég er að velta því fyrir mér hvort það gangi að ráðherra neiti einfaldlega að mæta á fund fagnefndar þingsins þegar um er að ræða rökstudda ósk; þessi ósk hefur nú verið orðuð og um hana fjallað sérstaklega í fjölmiðlum. Í hvaða stöðu er þá þingnefndin gagnvart framkvæmdarvaldinu ef einhver áhöld eru um að það séu málefnaleg sjónarmið sem leiða ráðherrann áfram í sínum embættisfærslum? Hvernig í ósköpunum á þá þingið að sinna sínu eftirlitshlutverki?

Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé full ástæða til þess að forseti skoði sérstaklega hvort hann getur stutt nefndina í þessu þegar fyrir liggur að nefndin hefur þríbeðið ráðherrann um að koma án þess að ráðherrann hafi orðið við því. Miðað við það þá sé ég ekki betur en að nefndin sé nokkuð lens í sínum úrræðum.