144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

beiðni um komu ráðherra á fund atvinnuveganefndar.

[15:08]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Rúmlega 700 millj. kr. ívilnunarsamningur í kjördæmi hæstv. iðnaðarráðherra við menn eða aðila sem eru venslaðir inn í forustu ríkisstjórnarinnar — ég hefði haldið að undir slíkum kringumstæðum mundi ráðherra kappkosta að mæta á fund atvinnuveganefndar og útskýra stöðu málsins. Ég mundi halda að allar aðstæður og allir málavextir í þessu máli kölluðu á það að menn væru alveg skýrir og reyndu ekki á nokkurn hátt að koma sér undan því að veita þingmönnum, sem eru að leita að upplýsingum um málið og fjalla um þingmál þessu tengt, upplýsingar. Það er alveg með eindæmum ef hæstv. iðnaðarráðherra ætlar að haga sér í þessu máli eins og internetið hafi bara ekki verið fundið upp og hægt sé að gera þetta án þess að nokkur komist að nokkru. Það er fráleitt.

Auðvitað á hæstv. forseti að beita sér í því að ráðherrann mæti á fund nefndarinnar.