144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

beiðni um komu ráðherra á fund atvinnuveganefndar.

[15:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forseti hefur nú sýnt aðra eins röggsemi af sér á síðustu dögum enda elskaður og virtur af þinginu. Hann mun örugglega sjá til þess að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra komi til fundar við nefndina, jafnvel þó að það þurfi að draga hana.

Hins vegar tel ég að málið sé þannig vaxið að það sé fullkomlega eðlilegt að þingið fái það til umræðu. Hér hefur verið boðuð sérstök umræða um málið. En ég tók eftir því í Kastljósi í gær að hæstv. ráðherra varði málið með því að vísa til frumvarps sem ekki er búið að samþykkja. Það finnst mér mjög skrýtið og hef aldrei vitað það áður.

Ég legg til, herra forseti, að þetta mál komi inn í þingið með nákvæmlega sama hætti og hæstv. ráðherra kom með sérstakan samning vegna Thorsils. Þá getum við, þingheimur, einfaldlega fengið að ræða það hér og þá munu allar hliðar þessa máls koma upp.