144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

beiðni um komu ráðherra á fund atvinnuveganefndar.

[15:11]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Aðeins til að ítreka þá beiðni mína sem ég flutti hér áðan til hæstv. forseta um að ráðherrann komi til nefndarinnar. Það er meðal annars vegna þess að ívilnunarfrumvarpið á bara eftir eina umræðu og það hafa komið fram, varðandi þennan ívilnunarsamning við Matorku, frá Landssambandi fiskeldisstöðva, miklar athugasemdir þar sem talið er að það skekki mjög samkeppnisstöðu annarra fyrirtækja í greininni, sem eru með 65% af heimsmarkaði nú þegar. Þá segir það sig sjálft að ef 3.000 tonn af bleikjueldi kemur inn, með ívilnunarsamningi upp á sirka 700 milljónir, þá skekkir það mjög samkeppnisstöðu. Það má leiða að því líkur að með hag Íslands í huga verði ekkert annað en verðfall á bleikjuafurðum í framhaldi af þessu.

Virðulegi forseti. Ég bendi á, það er það sem ég þarf að ræða við ráðherrann, að samkvæmt EES-samningnum er óheimilt að veita ríkisaðstoð sem er til þess fallin að raska samkeppni, svo sem með ívilnun til ákveðinna fyrirtækja. Það er vegna þessa og vegna stöðu (Forseti hringir.) málsins hér í þinginu, og þess að ráðherrann kom einhverra hluta vegna með Thorsil-samninginn hingað en (Forseti hringir.) ekki þennan, sem ráðherrann verður að koma á fund nefndarinnar.