144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

beiðni um komu ráðherra á fund atvinnuveganefndar.

[15:12]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég sá þennan ráðherra, sem neitar að mæta fyrir nefnd, hér í þinghúsinu og mér þætti sómi að því ef ráðherrann gæti komið hér og sagst ætla að þekkjast boð nefndarinnar. Manni finnst þetta vera mál þess eðlis að hér þyrfti nánast að setja á fundarhlé þangað til búið er að koma á þeim fundi.

Ég skil ekki hvernig þetta fær að þróast hérna og malla undir öllum þessum vondu málum sem hafa verið að koma upp undanfarna daga. Það er eins og það sé bara í lagi að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, bæði núverandi og fyrrverandi — því að ég ætla að minna á að fyrrverandi ráðherra og núverandi þingmaður, Hanna Birna Kristjánsdóttir, neitar að mæta fyrir fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það er ekki bara eitt, það er allt.