144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Eins og kunnugt er var hluti af rómuðum skuldaaðgerðum ríkisstjórnarinnar að heimila fólki að nota sinn eigin séreignarsparnað, skattfrjálsan að vísu í þeim skilningi að ríki og sveitarfélög afsala sér skatttekjum af þeim hluta séreignarsparnaðarins sem greiddur er inn á tilgreind húsnæðislán viðkomandi eigenda, til að lækka höfuðstól þeirra. Ákvæði laganna er alveg skýrt að greiðslurnar skulu ganga til lækkunar á höfuðstól lánanna. Nú eru að berast af því fréttir, og ég hef fengið nokkur dæmi í mínar hendur, um að framkvæmdinni er öðruvísi háttað.

Í einhverjum mæli, ég veit ekki hve miklum, standa bankar eða lánasjóðir þannig að þessu að greiðslurnar ganga inn á lánin jafnvel skömmu fyrir gjalddaga þeirra þannig að stór hluti séreignarsparnaðargreiðslunnar fer í að greiða uppsafnaða vexti og verðbætur og lækkun höfuðstólsins verður að sama skapi minni. Hér er um að ræða brot á lögunum og hér er um að ræða mjög ámælisverða framkvæmd og alvarlega. Við getum tekið sem dæmi ef lán eru með þriggja mánaða gjalddaga á þriggja mánaða fresti, segjum að gjalddaginn sé 10. febrúar en greiðslan berist frá bankanum, eða frá vörsluaðilanum, gegnum banka inn á lánið 2. febrúar eða 8. febrúar. Þá eru uppsafnaðir næstum þriggja mánaða vextir og verðbætur sem dragast frá greiðslunni áður en til lækkunar höfuðstóls kemur. Þetta er ekki í samræmi við lögin og þetta hefur þann freistnivanda í för með sér fyrir lánastofnunina annars vegar að þetta dregur úr uppgreiðsluhraða lánsins og þar með uppgreiðsluáhættu sem viðkomandi lánastofnun kannski hefur. Við skulum átta okkur á því að hér er um uppgreiðslur án uppgreiðslugjalds að ræða.

Hinum megin er þetta í reynd aðferð fyrir viðkomandi skuldara til að fá skattfrjálsan séreignarsparnaðinn sinn út til neyslu því afborgun lánsins (Forseti hringir.) lækkar sem þessu nemur. Hvorugt var ætlunin (Forseti hringir.) með lögunum. Þess vegna tel ég að Alþingi og þeir sem eiga að annast um þessa framkvæmd verði að taka (Forseti hringir.) mjög fast á þessu máli.