144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1990 er mjög mikilvægur mannréttindasamningur. Markmiðið með honum er að tryggja börnum tiltekin lágmarksréttindi á ýmsum sviðum sem reynslan sýnir að ráða úrslitum um hvort börn búi við ásættanleg lífsgæði og geti þroskast ósköðuð á sál og líkama.

Langflest ríki heims hafa skuldbundið sig til að virða barnasáttmálann. Ísland gerði það árið 1992 og samningurinn var tekinn í íslensk lög árið 2013.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna fylgist með að aðildarríki standi við skuldbindingar sínar og tekur út stöðuna í aðildarríkjunum á nokkurra ára fresti og birtir skýrslu með tilmælum til hlutaðeigandi ríkja um að lagfæra það sem betur má fara. Til þess að þessar úttektarskýrslur komi að sem mestu gagni til að tryggja börnum þau lágmarksréttindi sem þeim ber segir í samningnum, með leyfi forseta:

„Hvert aðildarríki skal sjá um að skýrslur þess séu auðveldlega tiltækar almenningi í landi sínu.“

Barnaréttarnefnd birti úttektarskýrslur um stöðu mála á Íslandi árið 2003 og síðast árið 2012. Ísland er í fremstu röð ríkja heims hvað varðar aðgang almennings að internetinu. Því virðist augljóst að íslenska ríkið hljóti að hafa látið þýða þessar úttektarskýrslur á íslensku þegar þær komu út og birt þær á heimasíðu hlutaðeigandi ráðuneyta og stofnana og að minnsta kosti á heimasíðu innanríkisráðuneytisins sem er sérstaklega ábyrgt fyrir mannréttindamálum. En þetta er víst ekki þannig gert og er ekki þannig. Þessar úttektarskýrslur barnaréttarnefndar eru ekki aðgengilegar á heimasíðum ráðuneyta og stofnana og raunar skilst mér að þær hafi ekki verið þýddar á íslensku. Er þetta í lagi? Bendir það til þess að íslensk stjórnvöld taki skuldbindingar samkvæmt barnasáttmálanum nægilega alvarlega?

Úttektarskýrslurnar um Ísland eru þó sem betur fer á heimasíðu barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna — en á ensku. Því miður er ég hræddur um að stærstur hluti þeirra barna sem samningurinn varðar sérstaklega ráði illa við að skilja þær þegar þær eru á ensku.

Ég hvet ráðuneytið og okkur öll til að drífa í að lagfæra þetta.