144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera að umtalsefni þann vanda sem Alþingi Íslendinga á við að etja um þessar mundir og snýr að samskiptum þess við framkvæmdarvaldið. Ég nefni tilraunir hæstv. ríkisstjórnar til að fara með stórt stefnumál í utanríkismálum fram hjá þinginu og láta eins og þingsályktunartillaga sem unnið var eftir detti sjálfkrafa úr gildi við kosningar. Þar með leikur vafi um mörg önnur mál sem byggð eru á þingsályktunum og staða þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu veikist. Ég nefni tillögu meiri hluta atvinnuveganefndar sem er að fara gegn lögum um rammaáætlun og taka verkefnisstjórn um rammaáætlun úr sambandi og setja um leið í loft upp áralanga vinnu að samkomulagi um vernd og nýtingu náttúrusvæða.

Því næst eru þokukenndar lýsingar hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra á ívilnunarsamningi sem byggir á frumvarpi sem Alþingi hefur ekki samþykkt og virðist beint gegn fyrirtækjum í sama atvinnurekstri og til hagsbóta fyrir frændgarð formanns Sjálfstæðisflokksins. Á síðasta kjörtímabili bar mönnum saman um að stjórnarandstaðan hafi þá verið óvenjuárásargjörn og óbilgjörn. Kannski liggur vandi Alþingis nú að einhverju leyti í því að meiri hluti hæstv. núverandi ríkisstjórnar stýrði verkum þeirrar stjórnarandstöðu, annaðhvort sem þingflokksformenn eða forustumenn flokkanna. Svo virðist að út úr því hlutverki hafi þau að einhverju leyti ekki komist og eru orðin árásargjarn og óbilgjarn stjórnarmeirihluti.

Virðing Alþingis er í húfi og hún er ekki einkamál alþingismanna. Þingræðið og lýðræðið eru undir og um leið hagur almennings.