144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

störf þingsins.

[15:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að vekja máls á þessu. Nú er það reyndar þannig varðandi þetta mál að það er út af fyrir sig ekki komið til atvinnuveganefndar til formlegrar umræðu, alla vega hefur það ekki verið rætt á fundum nefndarinnar sem ég hef setið. En engu að síður, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, hefur Landssamband fiskeldisstöðva komið á fund nefndarinnar og lýst áhyggjum.

Nú er það svo að við í nefndinni höfum ítrekað fengið fulltrúa ráðuneytisins til að skýra málið og skýra hvernig það getur tengst, fallið að eða ekki fallið að, því frumvarpi sem er til umræðu í nefndinni og til umfjöllunar. Ég get fullvissað hv. þingmann um að meiri hluti atvinnuveganefndar mun í þessu máli eins og öðrum taka sér góðan tíma og vinna vel að því að fara yfir frumvarpið og samninginn með hliðsjón af því.

Mér var ekki kunnugt um eignarhald á þessu félagi. Ég legg það ekki í vana minn að leggja mig sérstaklega eftir eignarhaldi á félögum sem eru til umræðu hverju sinni. En nú er það auðvitað þannig að í þessu landi sem við búum í, í fámenninu, komumst við ekki hjá því að menn séu skyldir hver öðrum. Ég veit ekki hvort það er rétta leiðin að setja sérstök lög um það eða lagaskilyrði að menn megi ekki vera skyldir, þ.e. þegar um er að ræða eignarhald fyrirtækja. En út af fyrir sig, eins og ég segi, eignarhald á þessu fyrirtæki eða öðrum truflar mig ekki.

Það er náttúrlega aðalatriðið að farið sé að lögum og það verður gert. Það verður að gæta að því að ívilnunarsamningar hafa verið gerðir við fleiri fyrirtæki og runnið í gegnum þingið og (Forseti hringir.) fljótt á litið lítur þessi samningur svipað út og þeir samningar. En við munum fara rækilega yfir þetta mál.