144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

störf þingsins.

[15:41]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til að eiga orðastað við hv. þm. Elínu Hirst.

Hér er enn sem fyrr til umræðu bréf hæstv. utanríkisráðherra sem hann sendi í umboði ríkisstjórnarinnar til Evrópusambandsins en það er eiginlega sá þáttur málsins sem hefur komið hér fram í eftirleiknum, það er skilningur ríkisstjórnarinnar á þingræðinu. Hann virðist vera sá að ríkisstjórnin geti gert hvað sem hún vill svo framarlega sem meiri hlutinn verji hana vantrausti. Ég er algerlega ósammála þeim skilningi og flestir sem eitthvað skilja um stjórnskipan en mig langar til að skilja hvernig svona stjórnarhættir, samkvæmt ríkisstjórninni þá, ganga fyrir sig. Það er ekki auðvelt því þetta eru stjórnarhættir sem einkennast af leyndarhyggju.

Það er ekkert skjalfest um skoðun meiri hlutans í þessu máli því að ekkert þingmál var afgreitt úr þingflokkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um þetta bréf og erindi þess. Þess vegna kem ég hér og þarf að spyrja einstaka þingmenn til að átta mig á því hvernig þetta mál kom til. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvernig henni hafi verið kynnt efni bréfsins, hvort hún hafi verið sátt við þá aðferðafræði og hvort almenn sátt hafi verið í hópi þeirra þingmanna sem fengu kynningu fyrir fram en ekki í útvarpinu eins og sú sem hér stendur.

Þá vil ég líka spyrja hv. þingmann, sem hefur um áratugaskeið fylgst með íslenskum stjórnmálum, hvort hún hafi í raun og veru verið að bjóða sig fram á afgreiðslustofnun eða til að fara með löggjafarvald í landinu.