144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

störf þingsins.

[15:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða aðeins þessa hugmynd sem ríkisstjórnin hefur, um hvernig hún hafi og ætli að hegða sér gagnvart Alþingi Íslendinga. Skýrt hefur komið fram að ríkisstjórnin hyggst hegða sér eins og henni sýnist svo lengi sem meiri hluti er á þinginu til að verja hana vantrausti. Þetta kemur ítrekað fram í ræðum þeirra sem skipa hæstv. ríkisstjórn.

Mig langar aðeins að fara út í smásamanburð til að reyna að veita okkur smávon hérna í því hvernig við greiðum úr þeirri þvælu sem við erum komin í. Ef við ætlum alfarið að halda okkur innan þess, ætlum eingöngu að halda okkur innan þess, sem við megum gera án tillits til virðingar fyrir Alþingi, virðingar fyrir þessari stofnun, vil ég benda á að það er ýmislegt sem hver þingmaður má gera, í meiri hluta eða minni hluta. Hann getur lagt fram eins margar breytingartillögur og hann vill, hann getur heimtað nafnakall í hverri atkvæðagreiðslu ef hann vill, hann getur sett inn eins margar skriflegar fyrirspurnir og hann vill. Það er hægt að fara þessa leið. Og hvað ef einhver mundi hvá yfir þessu og segja: Nei, nú er of langt gengið, nú hefur Alþingi aldeilis misst virðinguna. Þá er kannski hægt að kalla á forseta lýðveldisins og segja: Ja, leystu þá bara upp þingið. Hvað mundi Alþingi segja við því, hvað mundi virðulegur forseti segja við því? Væntanlega fussa, og vonandi, því að þannig kemur maður ekki fram við þingið, það er heili punkturinn. Frekar en að leyfa hegðun ríkisstjórnarinnar, og að leyfa henni að hegða sér gagnvart þinginu alfarið og eingöngu samkvæmt sínum eigin skilningi á því hvað hún megi svo lengi sem ekki komi til vantraust, er ég með þrjár hugmyndir.

1. Aðskiljum Alþingi og ríkisstjórn, þ.e. að einstaklingar megi ekki vera ráðherrar og þingmenn á sama tíma.

2. Komum á fót málskotsrétti þjóðarinnar þannig að þjóðin geti sjálf útkljáð mál þegar okkur tekst það ekki hér.

3. Málskotsrétt minni hluta Alþingis þannig að þriðjungur þings geti kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu þegar okkur tekst ekki að haga okkur eins og fullorðið fólk á þessum vinnustað.

Þetta eru hógværar, ódýrar og einfaldar lausnir sem mundu koma okkur fram á við. Þá getum við kannski hætt þessum andskotans sandkassaleik. Fyrirgefið … (Forseti hringir.)

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda verði að jafnaði opnir.