144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við tökum hér upp þráðinn þar sem frá var horfið í umræðu um skýrslu utanríkisráðherra um bréf sem hann sendi Evrópusambandinu í síðustu viku og eru nokkrar og ólíkar skýringar á því hvað í bréfinu stendur eða hvert hafi verið í raun og veru markmiðið með því.

Umræðan í þinginu hefur fyrst og fremst snúist um það og að auki kannski hver staða framkvæmdarvaldsins er í raun og veru í lýðveldinu Íslandi. Mig langar að staldra sérstaklega við þessa tvo punkta, þ.e. annars vegar hvað það var sem hæstv. utanríkisráðherra ætlaði að segja og svo hins vegar hvert umboð framkvæmdarvalds á hverjum tíma er til að taka stefnumarkandi ákvarðanir.

Í lýðræðisríki gerum við mjög ríka kröfu til þess að það sé skýrt og afmarkað hvaða umboð framkvæmdarvaldið hefur til að setja fram og koma til framkvæmda lýðræðislegum vilja löggjafans. Löggjafinn hefur tilteknar leiðir til að tjá sig við framkvæmdarvaldið og það gerum við með löggjöf og það gerum við með þingsályktunartillögum. Það er í raun og veru engin önnur leið fyrir löggjafann til að tjá sig við framkvæmdarvaldið nema með þessum hætti og þá skiptir auðvitað máli að það sé gert eins skýrt og nokkurs er kostur. Það skiptir máli að sú leiðsögn sé skýr og hún sé líka afmörkuð.

Árið 2009 var samþykkt þingsályktunartillaga og sú þingsályktunartillaga var óvenjuleg að því leytinu til að um var að ræða skýra leiðsögn til ráðherra um hvað stæði til og í því sambandi dugir ekki að horfa til pólitískra túlkana á stöðu málsins heldur einfaldlega afgreiðslu málsins út úr þinginu. Þingsályktunartillagan var samþykkt með atbeina fulltrúa úr öllum stjórnmálaflokkum sem áttu sæti á Alþingi á þeim tíma. Þarna var um að ræða mjög viðurhlutamikla ákvörðun og þegar svo stór ákvörðun var annars vegar þurfti ráðherra sannarlega að fá mjög skýrt umboð og mjög skýr fyrirmæli frá þinginu.

Þegar þingið hafði síðan afgreitt þingsályktunartillöguna, leiðsögnina til ráðherrans, hófst tiltekið ferli sem þingið hefur ekki tekið nýja afstöðu til og þá er ég að tala um Alþingi Íslendinga óháð kosningum á hverjum tíma. Framkvæmdarvaldið hefur í raun og veru ekki sjálfstæða stöðu til að snúa við eða beinlínis hefja vegferð í aðra átt en Alþingi hefur sagt fyrir um nema Alþingi taki ákvörðun um það. Svona einfalt er þetta og í raun og veru vorum við öll sammála fyrir ári um að umboðið væri hjá þinginu til að leiðbeina ráðherranum um viðsnúning ef pólitískur vilji væri til þess en hins vegar var það svo, þegar við ræddum tillögu til þingsályktunar fyrir réttu ári, að deilan stóð um það að menn voru minntir á kosningaloforð um að þjóðin ætti að koma að ákvörðun um að slíta viðræðum eða slíta ekki.

Okkur öllum til upprifjunar þá var rædd fyrst skýrsla frá Hagfræðistofnun og síðan var þingsályktunartillaga hæstv. ráðherra rædd og öll þessi umræða tók fimm daga. Þar var töluverð umræða sem tók langan tíma sem snerist um óboðlega greinargerð hæstv. ráðherra sem var síðan dregin til baka og endursamin. Því miður voru tveir alvarlegir annmarkar á framsetningu málsins á þessum tíma, annars vegar greinargerðin sem var óboðleg fyrir þingið og hins vegar sú staðreynd að þingið hafði ekki lokið umfjöllun um skýrslu Hagfræðistofnunar þegar þingsályktunartillögunni var beint inn í þingið. Hvort tveggja gerði það að verkum að umræðan lengdist vegna þess að hér þurfti líka að ræða um form, því miður.

Ríkisstjórninni varð fljótlega ljóst að málið væri strand, að þótt hún hefði afl að því er varðaði hausatölu í þingsal þá hefði hún ekki pólitískt afl til að klára þetta þannig að málið sofnaði værum blundi í fangi hv. þm. Birgis Ármannssonar. Og það var ekki bara, svo við rifjum það upp, stjórnarandstaðan sem hélt vöku sinni og stóð vaktina fyrir hönd lýðræðislegra sjónarmiða heldur þingmenn stjórnarflokkanna líka og almenningur sem skrifaði undir svo tugum þúsunda skipti ákall um þjóðaratkvæði og stóð hér úti á Austurvelli dag eftir dag til að minna okkur á hvaðan umboðið kemur.

Síðan gerist það í marsmánuði á tveimur vikum að tekin er ákvörðun um að hverfa frá þessari málsmeðferð þannig að skyndilega deildum við ekki þeim skilningi að þingið þyrfti að koma að málinu heldur var ákveðið að það dygði að gera þetta með bréfi, eða hvað? Síðan eru það eiginlega vangaveltur daganna núna, í dag, í gær og í fyrradag: Var í raun og veru verið að slíta einhverju? Var í raun og veru verið að gera eitthvað? Og það er eiginlega óþægilegast við stöðuna eins og hún er akkúrat núna. Það væri gagnlegt að lista upp það sem aðskiljanlegir forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa sagt um þetta mál, í fyrsta lagi hæstv. utanríkisráðherra, í öðru lagi hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og hv. formaður utanríkismálanefndar Birgir Ármannsson. Ef það væri nú svo vel að þeir væru hver með sína túlkun og það væri allt og sumt þá væri þokkalegt við að eiga en það er ekki svo heldur breytast þær túlkanir líka eftir því sem dagarnir líða. Það sem verra er eða flóknara er að Evrópusambandið veit ekki um hvað bréfið var og skilur ekki stöðu málsins heldur og það þrátt fyrir að fram hafi komið að ráðherra og ríkisstjórn hafi átt samráð við Evrópusambandið um þessar bréfaskriftir. Nú hefur komið fram að bréfið hefur verið tekið til skoðunar en ráðherraráðið hafði ákveðið að blanda sér ekki í stjórnmálaumræðuna á Íslandi, það er staðan. Ég sé ekki betur en það sé að gerast núna í annað sinn að hæstv. utanríkisráðherra taki töluvert tilhlaup að því að ætla að leiða þetta óhræsismál til lykta, fyrst í fyrra og svo aftur núna, og það sé magalending í annað sinn. Maður veltir auðvitað fyrir sér hvernig menn ætli að núllstilla þá stöðu sem upp er komin og ég sé eiginlega ekki aðra leið en að bréfið verði í fyrsta lagi dregið til baka og í öðru lagi að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu í samræmi við tillögu formanna stjórnarandstöðuflokkanna þar sem þjóðin verði spurð um afstöðu til áframhalds viðræðna.