144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að einhvers konar kúvending varð í plani á þessum tveimur vikum, þ.e. á tímabilinu frá 3. mars og þar til á fimmtudaginn, því að 2. eða 3. mars kom hæstv. forsætisráðherra í fjölmiðla og sagði að til stæði að leggja fram þingsályktunartillögu. Tveimur vikum síðar hafði verið tekin ákvörðun um að gera þetta með öðrum hætti. Af hverju og hvað stóð til og hvað má lesa í pólitíkina á bak við þetta? Það er að minnsta kosti alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er að mörgu leyti í miklu meiri klemmu en sá flokkur hefur verið um árabil. Hæstv. fjármálaráðherra hefur reynt að ýta þeim átökum á undan sér í tíma og vonast til þess eins og mætir menn hafa stundum gert að tíminn mundi leysa þann hnút en það hefur eiginlega verið síður en svo. Staðan er í raun orðin sú að öðrum megin er mjög þungur Heimssýnararmur og hinum megin er öflugur hópur sjálfstæðismanna í atvinnulífinu sem er kominn á fremsta hlunn með að stofna nýjan flokk. Það er staðan sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra stendur frammi fyrir sem formaður Sjálfstæðisflokksins sem lætur sig hafa það að sitja ekki við borðsendann í Stjórnarráðinu sem formaður Sjálfstæðisflokksins gerir að jafnaði og formaður Sjálfstæðisflokksins sem situr uppi með það að festa í sessi 25% fylgi.

Þessi sami formaður Sjálfstæðisflokksins stendur núna frammi fyrir því að hafa tekið þátt í því að stimpla þessa aðferð (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra og hafa ekki enn séð til lands með pólitískar afleiðingar þess.