144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:13]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir ræðuna og ég vil taka undir með honum að ég tel að það sé mjög mikilvægt að vilji þjóðarinnar til framhaldsins komi fram en ég held að það sé ekki síður mikilvægt, miðað við það hvar málið er statt núna akkúrat á þessum dögum, að vilji þingsins til framhaldsins komi fram, þ.e. hvort við viljum halda þingsályktunartillögunni frá 2009 í gildi eða hvort Alþingi vilji breyta um stefnu frá því sem þar var samþykkt. Í tengslum við það langar mig að spyrja hv. þingmann um þann skilning sem kom fram í máli sumra hv. þingmanna sem tóku til máls í umræðunni í gær að ríkisstjórnin megi gera það sem hún vill svo framarlega sem stjórnarmeirihlutinn verji hana falli. Hver eru viðbrögð hv. þingmanns við svona orðum og hvernig metur hann stöðu okkar sem hér störfum? Erum við einhver afgreiðslustofnun eins og hér er gefið til kynna eða hvert á hlutverk Alþingis að vera?