144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:15]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt í þessu stóra máli, sem hefur sýnt sig að klýfur þjóðina í fylkingar, að þjóðin fái að segja sitt álit. Miðað við það sem á undan er gengið er það í sjálfu sér málamiðlun í málinu, þ.e. við sammælumst um það að nú skulum við bara leyfa þjóðinni að tala.

Það er rétt að við þurfum að fá fram vilja þingsins en fyrst hæstv. ráðherra velur það að leggja ekki fram þingsályktunartillögu að nýju, reynir að sniðganga þingið af því að þeir gáfust upp með málið í hv. utanríkismálanefnd á síðasta ári, held ég að sé langeðlilegast að fara beint í þjóðaratkvæði. Ég held að langeðlilegast sé að gera það strax.

Varðandi aðkomu þingsins og hvort ríkisstjórnin megi gera hvað sem er þá hefur einmitt verið mikið rætt í gær og líka í fjölmiðlum að það er eins og hæstv. ríkisstjórn hafi snúið hlutunum algerlega á haus. Þá á ég við að ríkisstjórnin stjórni og þingið hafi ekkert um það að segja, en framkvæmdarvaldið eða ríkisstjórnin á auðvitað að vinna í umboði Alþingis. Ég hef áður nefnt í fyrri ræðu minni að mælikvarðinn á það hvort samfélag er lýðræðislegt, hvort það sé málfrelsi í landinu, hvort fólk hafi leyfi til að hafa skoðanir, er staða minni hlutans á hverjum tíma. Þrátt fyrir það að hæstv. forseti og raunar fleiri hafi bent á að meiri hlutinn ráði og þá þurfi jafnvel ekkert að fá það staðfest í þingsal, sem er náttúrlega þvílík óvirðing við stöðu einstaklingsins í þinginu, jafnvel þótt menn telji þetta er ótrúleg ófyrirleitni að ætla sér, verandi með 51% (Forseti hringir.) atkvæða í síðustu kosningum, að sniðganga hinn helming þjóðarinnar.