144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:18]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmaður hitti naglann á höfuðið þegar hann segir að hæstv. ríkisstjórn sé að snúa hlutunum á haus þar sem maður fær það á tilfinninguna í hverju málinu á fætur öðru að það sé einmitt hæstv. ríkisstjórn sem stjórni þinginu en ekki þingið sem taki ákvarðanirnar og leggi línurnar fyrir hæstv. ríkisstjórn.

Mig langar að víkja aftur að bréfi hæstv. utanríkisráðherra og því hvaða tilgangi það hafi átt að þjóna. Sitt sýnist kannski hverjum og merkilegt að hver og einn sem það les virðist túlka það með sínum hætti. Það mátti lesa í Morgunblaðinu að Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, hefur sagt á blaðamannafundi að hann telji að þetta sé mál sem Ísland verði að ákveða innan lands og að það sé ekki Evrópusambandsins að ákveða hvernig landið taki á málinu, þ.e. Ísland verði að ákveða hvernig það ætli að taka á málinu í samræmi við stjórnskipun okkar. Þá langar mig til að viðra þá kenningu sem maður hefur heyrt fleygt að það hafi í raun verið ætlunin að fá Evrópusambandið til að skera hæstv. ríkisstjórn úr snörunni með því að slíta viðræðunum við Ísland þannig að hæstv. ríkisstjórn þyrfti ekki að gera það. (Forseti hringir.) Hvernig metur hv. þingmaður þetta? Heldur hann að það sé eitthvað til í því?