144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:20]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér dálítið skemmtilegt en sorglegt í leiðinni að við skulum standa hér í ræðustóli hver á fætur öðrum og reyna að túlka bréf sem er skrifað eða alla vega afhent af hæstv. utanríkisráðherra sem er hér í salnum og hlustar á okkur. Honum hefur fullkomlega mistekist að skýra út fyrir okkur hver tilgangurinn var með bréfinu, vísar bara í Morgunblaðsviðtöl. Ég treysti mér ekki á þessu stigi að segja hver tilgangurinn var, ég átta mig ekki á því. Ég held að hugmyndin sé þessi: Hér er ágætisleið til að sniðganga Alþingi, þá lendum við ekkert í veseni með þetta, látum þingmenn standa frammi fyrir gerðum hlut.

En auðvitað er líka freistandi að halda að ástæðan hafi verið sú að með því að tjá skoðun sína með þessu bréfi mundi Evrópusambandið líta svo á að það hefði móttekið bréfið og móttekið skilaboðin og þar með væri viðræðum lokið. Þetta illgjarna, slæma ESB eins og stjórnarliðar líta gjarnan á, metur lýðræðið það mikils að það segir við hæstv. ríkisstjórn Íslands: Finnið út úr þessu sjálf. Það er ykkar að ákveða. Með ykkar lýðræðislegu leiðum ákveðið þið hver staða ykkar er. Og með því að taka ekki afstöðu þá segja þeir hreinskilnislega: Við höfum ekki áttað okkur á því hvað þetta bréf þýðir. Við höfum ekki hugmynd um hvað þið voruð að reyna að segja. Komið þið með skýrari skilaboð sem Alþingi stendur á bak við. Þá getum við farið að ræða um hvað átt er við.

En það sem hv. þingmaður nefndi í upphafi um afstöðu ríkisstjórnarinnar þá erum við með ríkisstjórn sem segir: Ég á, ég má, og það er það sem er óhuggulegt. Með svona dúndrandi hagsmunatengsl á bak við sig, hagsmunahópa sem þeir draga fram (Forseti hringir.) og ýta til hliðar almenningi í landinu til að skara eld að köku vina sinna.