144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:32]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna en það er eiginlega þannig að ég er að spyrja hann út í ræðu hans. Ég get samt alveg svarað þessari spurningu. Ég vildi hins vegar gjarnan spyrja hann að öðru líka. Ég veit að hann er mikill áhugamaður um beint lýðræði eins og ég sjálfur og sú fyrirmynd sem ég aðhyllist helst í þeim efnum er hin svissneska útgáfa af beinu lýðræði en ekki sú beina útgáfa lýðræðis sem tíðkast í Evrópusambandinu sérstaklega, enda hef ég ekki orðið var við að þar sé tíðkað beint lýðræði. Mér er næst að halda, og kannski hefur hv. þingmaður aðra skoðun á því, að sú þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem þjóðin segir já við aðildarsamningi að ESB, verði slík þjóðaratkvæðagreiðsla haldin, þegar þjóðin segir já við því verði það síðasta þjóðaratkvæðagreiðsla sem þjóðin tekur nokkurn tímann þátt í.