144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:39]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður getur alltaf leitað til mín ef hann þarf einhverjar upplýsingar um Evrópusambandið. Í ljósi þess að Píratar eru orðnir, ég segi kannski ekki heimshreyfing en eru á góðri leið með að verða stærsti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi, þá kynni svo að fara að hv. þingmaður yrði utanríkisráðherra eftir næstu kosningar. Það er kannski ekki síst með tilliti til þeirrar stöðu sem ég býð fram mína krafta pro bono ef hv. þingmaður þarf á þeim að halda.

Aðeins til þess að ræða aðlögunina. Ég hef náttúrlega skýrt nákvæmlega hvernig þetta voru ekki neinar aðlögunarviðræður og við náðum þar ákveðnum áfanga sem enginn náði áður. En hitt er svo að við erum hér á hverjum degi að aðlaga Ísland að regluverki Evrópusambandsins. Það gerum við gegnum aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og það finnst mér stundum vera þinginu til minnkunar. Við tökum á degi hverjum, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir að taka við fyrirmælum frá Brussel í gegnum þann samning án þess að geta nánast nokkur áhrif haft á samninginn. Er það ekki fullveldistap? Jú, það hefur aukist í gegnum árin eftir því sem jaðar samningsins hefur færst út. Það þýðir að frá 1994 höfum við tapað meira fullveldi en við mundum gera með því að ganga í Evrópusambandið í dag. Af hverju? Ástæðan er sú að við mundum endurvinna fullveldi, með því að ganga í Evrópusambandið hefðum við rétt til þess að hafa ekki bara mótandi áhrif heldur afgerandi áhrif á það hvernig löggjöf mundi líta út.

Í dag er Alþingi að 30–40% að verða að afgreiðslustofnun vegna þess að það hlutfall af löggjöfinni sem við afgreiðum héðan kemur nánast með tölvupósti frá Brussel. Það er fullveldi sem sumir af einhverjum undarlegum misskilningi, en eru þó fullir fullveldisástar, virðast ekki gera sér grein fyrir.