144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir orð hv. þingmanns og þigg með þökkum alla leiðsögn hans, óháð stöðu og störfum. (Gripið fram í: Ekki vera hógvær.) Dramb er falli næst, eins og menn segja.

Það er svo margt í þessum málflutningi sem ég skil ekki enn þá þrátt fyrir að hafa setið hér í fyrra þegar við fórum yfir þessa skýrslu og ítreka það sem ég hef sagt í fyrri ræðum mínum undir þessum dagskrárlið. Á síðasta ári þegar við ræddum þetta mál var það þannig að þegar kom að tveimur stærstu málaflokkunum, sjávarútvegi og landbúnaði skildi skýrslan mig eftir með svona „cliffhanger“-tilfinningu, ég kann ekki íslenska orðið, virðulegi forseti. Svo átti ég orðastað við hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur sem las upp úr skýrslunni og þá fékk ég aftur þessa sömu tilfinningu. Við þurfum að komast að fleiri hlutum, við þurfum að skoða málið enn þá betur. Sú tilfinning fer ekkert, enda hef ég ekki tekið afstöðu til þess hvort ég vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki. Mér finnst í fyrsta lagi ekki vera tímabært að taka þá ákvörðun og mér mun ekki finnast það tímabært fyrr en samningaviðræðunum er lokið á þeim forsendum sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson útskýrði svo vel. Það sem er mikilvægara er að mér finnst það ekki bara vera ákvörðun okkar þingmanna, mér finnst það vera ákvörðun þjóðarinnar. Það finnst mér vera grundvallaratriði. Mér finnst við ekkert hafa rétt á því eða tilefni til þess að tala illa um lýðræðisfyrirkomulagið í Evrópusambandinu þegar við erum ekki einu sinni með það á hreinu hér, óháð þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og nýleg dæmi sanna.