144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að þessi umræða hafi verið gagnleg á sinn hátt og skýrt stöðu málsins nokkuð samhliða atburðum sem hafa orðið undanfarna sólarhringa. Eins og ég met stöðu þess núna þá er hún þannig að hæstv. utanríkisráðherra sendi þetta bréf og látið er að því liggja að slíta eigi viðræðunum eða aftengja ferlið eins og það leggur sig en bréfið er hins vegar ekki þannig orðað. Þá er næsta vígi, má segja, hæstv. ráðherra og aðstandenda málsins, stjórnarliða sem hafa orðið mjög margsaga um túlkun þess, að snúa augum sínum ekki til himins heldur til Evrópusambandsins og setja allt sitt traust á að Evrópusambandið lesi það út úr þessu óskiljanlega bréfi sem menn vildu helst fá að heyra þaðan, að Evrópusambandið taki að sér að gera það sem ríkisstjórnin af einhverjum ástæðum leggur ekki í. Ef hún er sjálfri sér samkvæm og vill slíta viðræðunum, vill afturkalla umsóknina þá kýs hún samt að gera það ekki, orðar bréf sitt ekki þannig. Látum nú vera á meðan hversu freklega hún hefði þá gengið fram hjá Alþingi heldur orðar hún þetta á þann undarlega hátt að ríkisstjórnin hafi engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju og ríkisstjórninni svona inni í sér finnist að ekki eigi að líta á Ísland sem umsóknarríki.

Hvernig bregst svo Evrópusambandið við að því marki sem enn eru viðbrögð þaðan? Jú, það endursendir kaleikinn. Hann var sendur heim í gær. Utanríkisráðherra Lettlands, Edgars Rinkevics, sagði einfaldlega: Reynið að koma því á hreint heima hjá ykkur Íslendingar hvernig þið viljið hafa þetta, ekki biðja okkur um að reyna að lesa í það hvað þið viljið með þessu óljósa orðalagi. Svo vitnað sé beint í orð utanríkisráðherra Lettlands á blaðamannafundi ytra í gær í Brussel, með leyfi forseta:

„Ég tel að þetta sé eitthvað sem Ísland verði að ákveða innan lands.“ — Ekki vera að biðja okkur um það. — „Evrópusambandið getur ekki skipt sér af stjórnmálaumræðunni í landinu.“

Það kemur síðan athyglisverð setning þegar ráðherrann hefur verið spurður betur út í þetta af blaðamanni hver sé eiginlega staðan í ljósi bréfaskrifta frá Íslandi, bæði frá stjórnvöldum og stjórnarandstöðu. Þá upplýsir ráðherrann að hann hafi kynnt bréfið en það sé ekki tilefni til sérstakra umræðna innan ráðherraráðsins og hann ítrekar að það sé Íslands að ákveða hvernig tekið er á málinu í samræmi við stjórnskipan þess, þ.e. Íslands. Boltinn er sendur heim. Þetta mistókst hjá hæstv. utanríkisráðherra. Hann og ríkisstjórnin sitja áfram með kaleikinn í höndunum. Og allur hefur þessi leiðangur orðið óskaplega vandræðalegur og orðið til þess að mínu mati að varpa rýrð á það hvernig haldið er á utanríkismálum Íslands.

Svo er auðvitað það sem hefur verið hliðarspor í þessari umræðu en er grafalvarlegt í sjálfu sér að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, og einstöku þingmenn reyndar líka, hafa gert sig bera að óskaplegum misskilningi eða vanþekkingu á stjórnskipun landsins, stjórnskipunarrétti og stjórnskipunarhefðum. Auðvitað getur maður, til að leita mildilegra leiða, skotið sér á bak við það eða hugsað sem svo: Þetta er reynslulaust fólk sem hefur ekki enn haft tíma til að setja sig vel inn í það hvernig hefðir og venjur og réttur liggur í þessum efnum, en það er auðvitað ekki gott að við búum við það lengi að ráðherrar og jafnvel heil ríkisstjórn sem vissulega er öll til samans mjög reynslulítil séu ekki með það á hreinu hvernig grundvallarstjórnskipun landsins er og fari út í ófærur í tilburðum til að túlka og réttlæta gjörðir sínar sem ekki ganga upp. Það verður greinilega að senda ráðherrana á námskeið, gott ef ekki bara allt stjórnarliðið, einstöku menn mundi ég þó telja að mundu hafa sig fram úr þessu eins og hv. þm. Birgir Ármannsson, hann er það reyndur og vel að sér en alla vega ráðherrana suma hverja á verulega langt námskeið í því.

Herra forseti. Hvernig er þetta í reynd í landi sem býr við þingbundna ríkisstjórn? Hvað felur það í sér og hver er þingræðisvenjan og til hvers vísar hún í lýðræðislegum skilningi? Hún vísar í þá einföldu staðreynd að þótt það standi ekki í stjórnarskránni okkar, því miður, af því að við höfum ekki náð að endurskoða hana, þá sprettur allt vald í landinu frá þjóðinni og þannig ætti það að standa í 1. gr. stjórnarskrár. (Forseti hringir.) Allt vald sprettur frá þjóðinni. Þjóðin kýs sér fulltrúa á fjögurra ára fresti og til þeirra fulltrúa sækir ríkisstjórn vald sitt og umboð(Forseti hringir.) en það kemur ekki úr hinni áttinni. Valdið kemur ekki innan úr mögum ráðherranna eða úr kontórum Stjórnarráðsins,(Forseti hringir.) það kemur héðan og frá þjóðinni.