144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:54]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held ekki að hæstv. utanríkisráðherra hafi gefið leiðtoga ríkisstjórnarinnar rangar upplýsingar. Á fundi utanríkismálanefndar í gær sem aðrir menn greindu frá yfir þetta púlt í gær þá kom það algerlega skýrt fram af hálfu hæstv. ráðherra að Evrópusambandið hefði engar skuldbindingar gefið um hvernig það færi með málið. Það sem hæstv. forsætisráðherra segir í viðtali við Eyjuna byggir ekki á upplýsingum frá hæstv. utanríkisráðherra. Annaðhvort byggir það á hans eigin órum ellegar þá að hæstv. forsætisráðherra hefur skáldað það upp til að styrkja stöðu sína þegar hann hélt því fram að búið væri að búa svo um hnútana að aðildarumsóknin væri í reynd formlega frá.

Það sem skiptir máli í þessari stöðu er að við afgreiðum þetta mál með þeim hætti sem hv. þingmaður var alltaf sammála um og hefur ítrekað í þessari umræðu með því að láta þjóðarviljann koma fram. Svo skal ég eftir atvikum öðrum megin víglínunnar en hugsanlega hv. þingmaður taka niðurstöðunni hvernig sem hún er. Ef hún verður á annan veg en þann sem mér er hugnanlegur þá tek ég því eins og hverju öðru hundsbiti og er vanur slíku. Ef ekki, þá taka menn til óspilltra málanna aftur. Ég held að krafan sem stjórnarandstaðan á að sameinast um við þessar aðstæður er að hér komi á dagskrá hið fyrsta sameiginleg þingsályktunartillaga allra flokka stjórnarandstöðunnar um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er það sem skiptir máli. Leysum þetta mál í eitt skipti fyrir öll fyrir atbeina beins lýðræðis.