144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir umræðuna sem hefur verið á kunnuglegum slóðum. Það hafa í rauninni ekki mjög margar spurningar komið fram en þó einhverjar. Menn hafa velt fyrir sér þingræðisreglunni og er ágætt að við förum aðeins yfir það hér á eftir því menn hafa gert mér upp túlkanir á henni. En ég vil þakka fyrir umræðuna.

Aðalatriðið er að ríkisstjórnin hefur með því bréfi sem var afhent bundið enda á aðildarferlið með óyggjandi hætti í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er nú einu sinni þannig að það hlýtur að vera mikilvægt að koma því á framfæri vegna þess misskilnings sem hér hefur verið uppi að ríkisstjórnin hafi ekki heimildir til að gera slíkt, m.a. kvað forseti upp úr með það í gær og mun ég koma að því síðar. En engu að síður vil ég koma því á framfæri að ég geri að sjálfsögðu fastlega ráð fyrir því að Evrópusambandið virði lýðræðislega kjörin yfirvöld á Íslandi. Annað væri hneisa fyrir sambandið.

Utanríkismálanefnd Alþingis hefur verið með í ráðum allt þetta kjörtímabil um þessa stefnu og því er ekki unnt að halda því fram að ekki hafi verið haft við hana samráð. Hafið er yfir allan vafa að ríkisstjórnin hefur fullar heimildir til að fara fram á þennan hátt. Það þarf ekki annað en vísa til álits sérfræðinga í stjórnskipunarrétti sem komið hafa fram undanfarna daga og orða forseta í gær. Ég ítreka það sem áður hefur komið fram að á Íslandi eins og í flestum ríkjum er stjórnskipun þannig hagað að mótun utanríkisstefnunnar og meðferð utanríkismála er á hendi framkvæmdarvaldsins. Það leiðir af eðli utanríkismála að verkahringur stjórnvalda á því sviði er ekki eins mikið mótaður af löggjafanum og á flestum öðrum sviðum stjórnsýslunnar. Í samræmi við það hefur verið litið svo á að stjórnvöld hafi rúmar heimildir til stefnumörkunar á sviði utanríkismála og geti látið þau til sín taka eftir því sem aðstæður krefjast hverju sinni. Það getur vel verið að um það séu deildar meiningar og þá er mikilvægt að taka um það sérstaka umræðu og ræða hvort þessu þurfi að breyta eða festa einhverjar reglur um með öðrum hætti.

Fyrri ríkisstjórn kaus að leita eftir stuðningi Alþingis við þá ákvörðun sína — takið eftir, leita eftir stuðningi Alþingis — að leita eftir aðild að Evrópusambandinu með þingsályktun. Álit sérfræðinga er að það sé ekki forsenda þess að hefja slíkar viðræður. Fyrri ríkisstjórn gat einfaldlega, líkt og kom fram í bréfinu sjálfu, eingöngu tilkynnt Evrópusambandinu að hún vildi fara í þessar viðræður vegna þess að í bréfinu er ekki vísað til þingsályktunar. Má í þessu sambandi líka benda á að ekki var farið af stað í viðræður um EES-samninginn á slíkum grunni. Það byggði ekki á ályktun frá Alþingi. Það var ákvörðun þeirrar ríkisstjórnar, enda naut hún tryggs meiri hluta, m.a. í samræmi við þá þingræðisreglu sem hefur verið hér til umfjöllunar. Með sama hætti var ríkisstjórnin ekki stjórnskipulega háð formlegum fyrirmælum eða samþykki frá Alþingi með annarri ályktun þegar hún kaus að hætta viðræðum við Evrópusambandið og setja endapunkt við það ferli sem gangsett var í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það bindur því ekki þessa ríkisstjórn þó að fyrri ríkisstjórn hafi kosið að leita eftir atbeina Alþingis til að hefja ferlið.

Í október 2011 útskýrði þáverandi utanríkisráðherra mjög vel í umræðum um árásir á Líbíu og þátttöku NATO í þeim af hverju hann taldi ekki þurfa að bera málið upp á Alþingi og af hverju hann taldi sér ekki skylt að hafa samráð við utanríkismálanefnd um framhald aðgerða. Orðrétt, með leyfi forseta:

„Þá er það er hárrétt hjá hv. þingmanni að á sínum tíma beitti ég því valdi sem ég hafði til að koma því í kring að fastafulltrúi okkar hjá Atlantshafsbandalaginu beitti ekki því neitunarvaldi sem hann hefði getað beitt fyrir Íslands hönd. Á þeim tíma hafði ég gengið tryggilega úr skugga um að ríkur vilji var til þess að þessi háttur væri hafður á innan þings. Sömuleiðis var þetta mál rætt á sínum tíma í utanríkismálanefnd einnig.“

Ég var sammála þáverandi utanríkisráðherra í október 2011 og ég er enn sama sinnis um stjórnskipulegar heimildir framkvæmdarvaldsins til að taka ákvarðanir af þessu tagi og um mat hans á þörf fyrir samráð við utanríkismálanefnd. Það fjölgar augljóslega í hópi þekktra stuðningsmanna aðildar þessa dagana sem telja aðstæður ESB vera með þeim hætti að hollara sé a.m.k. að vera á hliðarlínunni og fylgjast með hvernig mál þróast heldur en halda áfram í ferð án fyrirheits.

Mig langar að skjóta inn í að ég var spurður af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni hvort bréfið sem afhent var hefði skaddað stöðu Íslands. Einnig fullyrti hv. þingmaður að aldrei hefði verið haldið jafn illa á nokkru utanríkismáli. (Gripið fram í.) Þetta er mjög merkilegt frá fyrrverandi ráðherra og manni sem ég held að hafi framið eitthvert það mesta klúður sem um getur í stjórnmálasögu og utanríkismálasögu Íslands. Honum tókst ekki að klára eina stóra málið sem var á hans könnu og ríkisstjórnarinnar allt það kjörtímabil, að gerast aðili að Evrópusambandinu. Því klúðraði hæstv. ráðherra og ekki nóg með það heldur klúðraði hann því líka að skrifstofa Norðurskautsráðsins yrði á Íslandi. Það var alfarið klúður hv. þingmanns sem nú situr. Við getum haldið svona áfram og minnt t.d. á að ekki tókst þingmanninum að klára fríverslunarsamning við Kína þannig að slóðin eftir hv. þm. Össur Skarphéðinsson er þannig að ekki á að kasta steinum úr glerhúsi, var málshátturinn ekki þannig? Hann ruglast hér annað slagið en ég held að hann sé þannig. (Gripið fram í.)

Það kemur að því að gengið verður til kosninga á nýjan leik og þá geta þeir flokkar sem hafa aðild að ESB á stefnuskrá sinni borið stefnu sína undir þjóðina og leitað eftir því að mynda nýjan þingmeirihluta að baki endurnýjunar umsóknar og hafið leikinn á ný því þannig virkar að sjálfsögðu lýðræðið.

Það er eitt í þessu líka sem ég verð að nefna. Það kom fram á sínum tíma þegar þingsályktunin var samþykkt í atkvæðaskýringum að mig minnir, m.a. hjá hæstv. forseta er nú situr, að sumir áskildu sér rétt til að slíta viðræðunum hvenær sem væri. Það var ekki háð neinum sérstökum skilyrðum samkvæmt orðum ráðherrans á þeim tíma, engum skilyrðum. Það má líka velta fyrir sér hvort það hafi ekki einmitt verið skynsamlegt af hv. þingmanni að setja þetta fram vegna þess að virðulegur núverandi forseti hefur örugglega gert sér grein fyrir því að þær aðstæður kynnu að koma upp að betra væri að slíta viðræðum en halda þeim áfram.

Einnig minni ég á að sami hv. núverandi þingmaður og sá virðulegi forseti er nú situr sagði rétt fyrir kosningar, kvöldið fyrir kosningar í rauninni, að flokkur hans mundi aldrei samþykkja að ganga í Evrópusambandið, aldrei nokkurn tíma, útilokað að taka þátt í slíku. (Gripið fram í.) En þegar kemur hins vegar að því að mynda ríkisstjórn eins og hv. þingmaður gerði þá hlýtur að hafa verið um það samið á þeim tíma að flokkur hans viki frá þeirri stefnu til að geta myndað ríkisstjórn. Síðan hefur flokkur hans reyndar verið að flestu leyti mikill stuðningsaðili þessa ferlis um Evrópusambandið.

Menn hafa hér aðeins minnst á þjóðaratkvæði. Á síðasta kjörtímabili einu komu fram 14 tillögur á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslur, lögð voru fram 14 þingmál á síðasta kjörtímabili um að halda þjóðaratkvæðagreiðslur. Það var ein sem hæstv. þáverandi ríkisstjórn, þessir þjóðaratkvæðiselskandi flokkar, sáu sér fært að hrinda í framkvæmd og koma í gegn og það var varðandi stjórnlagaráðsdæmið allt saman sem var ekki bindandi að sjálfsögðu frekar en aðrar. Einni af fjórtán komu þessir ágætu stjórnarherrar á þeim tíma í framkvæmd.

Við getum haldið áfram að rifja upp. Það er svo magnað að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gjarnan komið hér upp og hvatt til þess að ekkert sé rifjað upp, menn eigi ekki að vera fastir í gamla tímanum, þótt þeir fari gjarnan aftur til ársins 2000 og 2003 eða eitthvað þar um kring. En af því að menn tala um virðingu þingsins og lýðræðið þá ætla ég að minnast þess þegar hæstv. þáverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, gekk hér fyrir framan þetta borð og stöðvaði atkvæðagreiðslu á Alþingi. Forsætisráðherra greip inn í atkvæðagreiðslu á Alþingi og stöðvaði hana af því að hún var ekki sátt við úrslitin. Þáverandi þingforseti lét það yfir sig ganga að forsætisráðherra gerði þetta með þessum hætti. Það var gert þinghlé til að reyna að breyta atkvæðagreiðslunni, til að knýja fram annan meiri hluta. Það gekk sem betur fer ekki. Um hvað var það mál sem krafðist þess að forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir beitti Alþingi þessu ofbeldi á þeim tíma, um hvað snerist það? Það snerist um bleiur, virðisaukaskatt á bleiur. Það var það sem þáverandi meiri hluti þoldi ekki að færi í gegn. Svo tala menn hér, fulltrúar þessara ágætu stjórnmálaflokka, Vinstri grænna og Samfylkingar, um virðingu þingsins og um lýðræði.

Hv. þm. Kristján L. Möller spurði hérna einnar spurningar áðan, hvort við gætum sæst á þá niðurstöðu sem hefur verið lögð fram. Ég get ekki sæst á niðurstöðu hans.