144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður að sýna því skilning að hæstv. utanríkisráðherra missi stjórn á sér og kjósi að tala um alla aðra hluti en sjálfan sig og eigin ákvarðanir (Gripið fram í.) í jafn hrikalegar ógöngur og hann er kominn með þetta embætti sem honum var treyst fyrir. En hann hefur verið spurður einfaldrar spurningar og það er rétt að ítreka hana.

Þekkir hæstv. utanríkisráðherra eitt dæmi um það frá því að embætti utanríkisráðherra á Íslandi var stofnað árið 1940 að utanríkisráðherra hafi farið gegn þingsályktun sem samþykkt hefur verið á Alþingi, hvort sem hún hafi verið samþykkt á því kjörtímabili eða á einhverju kjörtímabili áður? Þar sem við sækjum hefð okkar mikið til Danmerkur og vorum áður undir Dönum — ef hæstv. utanríkisráðherra getur ekki bent á einn mann sem farið hefur að ráði sínu í embætti utanríkisráðherra með sama hætti og hann hefur nú gert, getur hann þá bent okkur á eitt dæmi úr danskri stjórnmálasögu þar sem utanríkisráðherra hefur farið gegn samþykktri þingsályktun danska þingsins um stefnu í þeim málaflokki? Eitt dæmi, hæstv. utanríkisráðherra, um einhvern sem farið hefur að ráði sínu eins og ráðherra hefur gert í embætti.

Verðum við ekki líka að spyrja utanríkisráðherra: Er hann sammála verðandi formanni þingflokks Framsóknarflokksins, aðstoðarmanni forsætisráðherra og formanni fjárlaganefndar, þegar þau segja í því þingskjali sem dreift hefur verið á Alþingi Íslendinga, að enginn nema Alþingi geti afturkallað umsóknina og taka þannig undir flokksbræður ráðherrans, með forseta Alþingis og með formanni og varaformanni utanríkismálanefndar um að það sem ráðherrann var að reyna að gera er ekki hægt því Alþingi eitt getur gert það?