144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu hlýtur Evrópusambandið að komast að öðru. Ríkisstjórn Íslands, hvar sem þingmaðurinn er nú, hefur þetta vald, alveg klárlega. Hún er ekki bundin af þeirri þingsályktun sem hér var lögð fram á síðasta kjörtímabili. Það er alveg klárt og kvitt, algjörlega. Og það hefur ekki aðeins einn fræðimaður sagt heldur fleiri og stuðst við það. Það er nákvæmlega með þeim hætti. (Gripið fram í.) Við erum ekki bundin af þessari (Gripið fram í: … fræðimenn heldur stjórnmálamenn.) þingsályktun, enda sjá það allir að það getur ekki verið. Ef hún hefði hins vegar verið byggð á einhverri lagastoð, ef lög hefðu til dæmis farið í gegnum þingið sem hefðu tryggt það að í lögum stæði að þetta ferli ætti að vera með þeim hætti og með þessu móti þá mundum við vera bundin til að fylgja því, nema þá að koma með lagafrumvarp til þingsins og breyta því. Við erum ekki bundin þessu og það þýðir að sjálfsögðu að Evrópusambandið hlýtur, ef einhver smáreisn er yfir Evrópusambandinu, ef einhver lýðræðislegur vilji er til að meta og virða vilja annarra, þá hlýtur það að bregðast við því með þeim hætti sem óskað er. Ísland er ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu.