144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

fólksfækkun og byggðakvóti.

[10:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli meðal annars á þessari íbúaþróun. Það sem er vissulega jákvætt er að á landsbyggðinni hafa aldrei búið fleiri en núna en það er rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að innan ólíkra landsbyggða er þróunin dálítið mismunandi. Þróunin á sunnanverðum Austfjörðum hefur verið um langt skeið í þessa veru. Það hefur satt best að segja ekki gengið nægilega vel í sjávarútvegi á minni stöðum eins og Stöðvarfirði og Breiðdalsvík og núna síðast Djúpavogi sem hafði um skeið gengið nokkuð vel, en þó er ekki langt síðan að nokkur erfið áföll gengu þar yfir, m.a. þegar uppsjávarvinnslan fór þaðan og verulegar breytingar urðu á kvóta.

Það er rétt sem kom fram, og hv. fyrirspyrjandi þekkir auðvitað mjög vel, að við höfum verið að efla þá leið að nýta Byggðastofnun og úthluta kvóta í gegnum hana til að snúa við þessari þróun, tryggja ákveðna byggðafestu. Nú höfum við verið að leggja mat á það hvernig þetta verkefni hefur gengið. Í bráðabirgðaniðurstöðum skýrslu um það er margt sem bendir til þess að ávinningurinn sé býsna góður af þessu hringinn í kringum landið þó að hann sé kannski ekki sambærilegur við öfluga fiskvinnsla á einhverjum einum stað á ákveðnum tímapunkti. Engu að síður er þetta mjög góð leið og ég held að það sé áhugavert að skoða það í tengslum við þingsályktun um hvernig við ætlum að nýta hinar félagslegu, byggðalegu og atvinnulegu heimildir sem ríkið heldur á, hvort þetta sé ekki ein besta leiðin til þess, að fara í gegnum Byggðastofnun með heimildirnar og byggja þær þá upp til lengri tíma með aðkomu annarra. Það er margt sem bendir til þess og ég er að minnsta kosti meira en tilbúinn (Forseti hringir.) að skoða það.