144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

fólksfækkun og byggðakvóti.

[10:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er sammála hæstv. ráðherra að þessi aðferð lofar góðu og það liggur í hlutarins eðli að með verulega aukinni byggðafestu veiðiheimilda sem Byggðastofnun getur tryggt á stöðunum til nokkuð margra ára eru allt aðrar forsendur fyrir því að byggja eitthvað varanlega upp. En magnið þarf líka að vera nægjanlegt til þess að sæmilegur grundvöllur sé fyrir þeim rekstri. Það ber vel í veiði að hæstv. ráðherra er bæði ráðherra sjávarútvegsmála og byggðamála og ég hvet hæstv. ráðherra eindregið til þess að ganga lengra í þessum efnum. Ég vísa til þess sem hæstv. ráðherra sagði sjálfur eftir fund með íbúum eða forsvarsmönnum Djúpavogs rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar vorið 2014, að ef sjávarútvegurinn sjálfur og sjávarútvegsfyrirtækin sýna ekki nægjanlega samfélagslega ábyrgð í því hvernig þau hegða sér verða stjórnvöld einfaldlega að auka svigrúm sitt til mótvægisaðgerða. Það er held ég það sem blasir við okkur. Við þurfum mun meiri veiðiheimildir í aðgerðir (Forseti hringir.) af þessu tagi. Það er ekki hægt að láta fólk búa við þann forsendubrest sem þetta sannanlega er gagnvart tilveru þess og birtist mjög skýrt á Djúpavogi.