144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

fólksfækkun og byggðakvóti.

[10:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að mjög mikilvægt er að við nýtum atvinnugreinina til þess að koma með í það að tryggja byggðafestu í landinu. Hið sama má segja um landbúnað, það sama má svo segja um hið opinbera. Hið opinbera og opinber störf eru einn liður í því að tryggja byggðafestu hringinn í kringum landið. Það er ekki hægt að leggja þessar byrðar á einstakar atvinnugreinar eingöngu, eins og til dæmis sjávarútveg eða landbúnað, heldur þarf ríkið að vera í samstarfi við þá aðila. En það er hægt að ætlast til þess af atvinnugreinunum að þær sýni samfélagslega ábyrgð og taki þátt í því. Það er síðan stöðugt umhugsunarefni hversu mikið af aflaheimildum við eigum að nýta í þetta, við vitum að þær eru ekki eins þjóðhagslega hagkvæmar í beinum hagfræðilegum stærðum en það þarf auðvitað að reikna fleira inn eins og íbúaþróun og eignir íbúa á hverjum stað og rétt fólks til þess að búa þar sem það kýs. Þá kemur ríkið auðvitað inn í líka og aðrir þættir eins og að styrkja innviði, til dæmis (Forseti hringir.) ljósleiðaravæðing alls Íslands sem skiptir gríðarlega miklu máli.