144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

húsnæðismarkaður og afnám verðtryggingar.

[10:56]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eins og ég hef svarað áður hér í ræðustól er verið að vinna hörðum höndum að frumvörpunum í ráðuneytinu. Við höfum átt í töluverðu samráði tengt þeirri vinnu til þess að tryggja það að málin komi sem best undirbúin inn í þingið. Við í velferðarráðuneytinu höfum náttúrlega fyrst og fremst verið að huga að þeim málum sem heyra undir þann ráðherra, það er erfiðara að koma að þeim lagabreytingum sem snúa að lagabálkum sem heyra undir aðra ráðherra. Ég mundi því hvetja hv. þingmann til að spyrja spurninga varðandi lög um vexti og verðtryggingu þann ráðherra sem það heyrir undir.

Við erum núna með frumvarp sem snýr að húsnæðisbótunum. Við erum með frumvarp sem snýr að stofnframlögum til uppbyggingar á félagslegum leiguíbúðum og stuðning við byggingu á íbúðum í húsnæðissamvinnufélögum. Við erum með verulegar breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög þannig að þau geti eflst og að við getum lært af þeirri reynslu sem við höfum farið í gegnum á undanförnum árum í framhaldi af hruninu. Og við erum síðan með mjög viðamiklar breytingar sem snúa að húsaleigulögunum. Þetta eru stórir lagabálkar. En eins og ég hef sagt áður geri ég ráð fyrir að koma með þau hingað inn fyrir þann frest sem við gefum til að leggja fram þingmál.