144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

innheimta útboðsgjalds vegna tollkvóta.

[11:02]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu. Málið er allrar athygli vert, ekki síst vegna fjölmiðlaumræðu um það. Það er rétt að geta þess að um var að ræða ein þrjú mál og ríkið var sýknað í þeim öllum sem er kannski ekki það sem virðist hafa verið fjallað um í fréttum. Það er hins vegar rétt sem hv. þingmaður benti á að í dómnum er talið að gjaldið sé skattur og að ráðherra hafi í lögunum of mikið vald vegna þess að hægt sé að velja þar á milli tveggja leiða.

Varðandi þá upphæð sem menn hafa greitt fyrir þessa uppboðskvóta, tollkvóta, nam hún um 300 milljónum á síðasta ári ef ég man rétt og var svipað og fyrir tíu árum, lækkaði síðan verulega 2008 og 2009, hrunárin, eðlilega þar sem innflutningur minnkaði en hefur síðan farið vaxandi. Þá er alveg rétt að verslunin hefur valið að velta þeim fjármunum yfir á neytendur sem hafa greitt þessar 300 milljónir. En þær 300 milljónir hafa jú farið í ríkissjóð og hafa þar af leiðandi komið almenningi til góða. Það er ekki eins og þær hafi horfið út úr hagkerfinu, svo það sé nú líka sagt. Þær hafa auðvitað nýst til góðra verka, m.a. til hagsbóta fyrir heimilin.

Ég hef sagt það áður og mun segja það hvenær sem er að ef óvissa er um að lög séu skýr eða hugsanlega ólögmæt er að sjálfsögðu eðlilegt að framkvæmdarvaldið fari yfir það og skoði það. Þær leiðir sem hafa verið farnar í öðrum löndum eru mismunandi, hér voru sem sagt þessir valkostir, ráðherra hafði þessar tvær leiðir. Það að varpa hlutkesti hefur (Forseti hringir.) verið prófað og reyndist illa, menn fóru á bak við ... (Forseti hringir.) ... hægt að binda einhverjar reglur um að hægt sé að gera það með betri hætti. En það er að sjálfsögðu eðlilegt(Forseti hringir.) ... að fara yfir …