144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[11:50]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrrverandi utanríkisráðherra og núverandi þingmanni, Össuri Skarphéðinssyni, fyrir prýðisskarpa og hvassa ræðu. Ég hef verið að leita eftir þessari skýrslu frá núverandi utanríkisráðherra, almennilegu stöðumati á samskiptum Íslands og Kína. Nú veit ég að fyrrverandi ráðherra er og var mikill áhugamaður um tvíhliða viðskiptasamning við Kína. Ég var fletta á vefsíðu utanríkisráðuneytisins þar sem spurt er og svarað um fríverslunarsamninginn og er spurt út í bága stöðu mannréttinda í Kína. Mig langar að spyrja hvort þingmaðurinn hafi orðið þess var að loforðið um að nýta þau tækifæri sem við höfum með heimsóknum til Kína til að ræða um mannréttindamál hafi verið efnt. Ég hef ekki orðið vör við það og hef ekki fengið neina skýrslu um það. Það er ekki neitt um það í þessari skýrslu og er slegið á áhyggjur og gagnrýni til dæmis ASÍ um fríverslunarsamninginn og sagt að búið sé að slá í gadda að nota eigi tækifærið þegar setið er við sama borð og ráðamenn í Kína til að ræða hrikalegt ástand mannréttinda víðs vegar í hinu stóra landi.

Hefur þingmaðurinn orðið var við að þetta loforð hafi verið efnt?