144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[11:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú er ég bara í því hlutverki sem ég kann svo vel við mig í, ég er fótgönguliði. Ég sit að vísu með hv. þingmanni í utanríkismálanefnd og hef sömu tækifæri og hún til þess að fylgjast með þeim hlutum. Ég mundi telja eftir rosknu minni að það væri ekki komið að þeim fundi sem hefði átt að verða fyrsti fundur í nefndinni sem við ræddum um og þráttuðum raunar um. Mig minnir að það hafi átt að verða innan eins árs og það er ekki ár liðið frá því að samningurinn var fullgiltur á Alþingi, því að það gerðist eftir kosningar eins og hv. þingmaður man, sennilega á sumarþinginu.

Svar mitt er því að ég hef ekki orðið var við það. En það þýðir ekki að ekki kunni að hafa verið einhvers konar viðræður. Ég vil svo nota tækifærið og segja henni frá því, sem hugsanlega hefur komið fram áður, að til dæmis þegar sá samningur var í undirbúningi, og ekki síst út af atbeina og harðri gagnrýni hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, voru mannréttindamál í fyrsta lagi tekin upp á fundi með forsætisráðherra Kína tveimur sinnum, tveimur mismunandi forsætisráðherrum. Og í öðru lagi, áður en samningurinn komst á endanlegt skrið fyrir desember 2012, var ráðuneytisstjóri íslenska ráðuneytisins sendur og hann ásamt sendiherra okkar þar átti langa fundi beinlínis um Tíbet. Ég hef lesið orðaskiptin af þeim fundum og verð að segja alveg eins og er að ég var nokkuð stoltur af því hvernig ráðuneytisstjórinn Einar Gunnarsson tók á þeim málum á þeim fundum.