144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[11:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Þáverandi viðskiptaráðherra kynnti sér ekki bara málin hér heima heldur, eins og hv. þingmaður segir, kom því mjög rösklega á framfæri og olli með orðum sínum usla. Þegar hann kom heim gerði hann síðan grein fyrir þeim viðræðum. Ég man ekki hvort það var í ríkisstjórninni eða óformlegum hópi ráðherra en líka í sínum þingflokki. Þess vegna er ég því kunnugur.

Ég ímynda mér að hæstv. utanríkisráðherra hafi sama vinnulag og ég og áreiðanlega aðrir á undan mér í stóli utanríkisráðherra, að allir þeir hópar hér heima, grasrótarsamtök sem vilja taka hús á ráðherranum fái tíma. Þannig er það, hv. þingmaður. Þetta er svo breytt veröld, herra forseti, að þegar ég horfi á höfuðkaptein stærsta stjórnmálaflokks stjórnarandstöðunnar er ég í öðru hverju orði næstum farinn að kalla hana hæstvirta. Kannski er það tímanna tákn.

Hv. þingmaður spurði hvort við hefðum sett okkur í samband við mannréttindasamtök. Já, en ekki í Kína. En við settum okkur í samband, þ.e. ráðuneytið, við mannréttindasamtök í sennilega tveimur ríkjum Afríku út af tilteknu máli, kannski þremur, ég er ekki alveg viss um það. Við höfum meira að segja styrkt mannréttindasamtök í öðrum ríkjum þó að það sé kannski alveg á jaðri þess sem ríki gera yfirleitt.