144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[12:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir að hæstv. ráðherra situr hér í salnum. En ég geri bara athugasemd við það, vegna þess að í þessum snörpu andsvörum sem leyfð eru og eru ætluð til þess að dýpka umræðuna og bregðast við, að það er þá nýtt að utanríkisráðherra treysti sér ekki í andsvör við talsmenn flokka sem hér hafa verið að tala.

Hæstv. ráðherra sagði í gær í lok ræðu sinnar þegar allt var búið, bar það okkur á brýn að fríverslunarsamningur við Kína hafi ekki verið gerður og ásakaði hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, fyrir að hafa ekki fylgt því máli eftir. En hann, eins og hann gerði áðan, gat um það að hann hefði sjálfur setið úti ásamt þáverandi forsætisráðherra og skrifað undir samninginn. Hæstv. utanríkisráðherra fór með fleipur í ræðu sinni og yrði maður að meiri ef hann kæmi hingað upp og bæðist afsökunar á þeim mistökum, sem eru ekki þau einu sem hæstv. ráðherra hefur gert um þessar mundir, og þeim sleggjudómi og þeirri vitleysu sem þar kom fram.

Ég vek aftur athygli á því, virðulegi forseti, og spyr hæstv. utanríkisráðherra: Af hverju í ósköpunum tekur hann ekki þátt í umræðunni?