144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[12:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek nú til máls eftir þetta sérstaka innlegg hv. þm. Kristjáns L. Möllers til umræðunnar þar sem hann virtist aðallega vera að fá útrás fyrir eitthvert ergelsi frá því í gær, en ég vildi í þessari umræðu fyrst og fremst draga fram nokkra þætti. Ég mun ekki koma inn á alla þætti utanríkisstefnunnar eins og þeim er lýst í skýrslu hæstv. ráðherra. Ég mun fyrst og fremst víkja að þeim þáttum sem mest hafa brunnið á okkur á vettvangi utanríkismálanefndar á undanförnum tæpum tveimur árum frá því að við tókum við eftir kosningar og reifa sjónarmið mín í því sambandi.

Fyrst vildi ég nefna að staða alþjóðamála í heild hefur breyst talsvert á þessum tíma, breyst töluvert til verri vegar. Þetta hefur að sjálfsögðu kallað á talsverð fundahöld á okkar vettvangi og hefur um leið breytt áherslum í samskiptum okkar við önnur ríki að því leyti að röð áherslumála, forgangsröðunin, hefur hugsanlega breyst. Þannig hafa hefðbundin heimspólitísk mál getum við sagt og breytt staða í þeim efnum kallað á umfjöllun af okkar hálfu og þá er ég fyrst og fremst að vísa til þeirra atburða sem átt hafa sér stað í austanverðri Evrópu, einkum Úkraínu þar sem stefna Rússlands og stuðningur þess beinn og óbeinn við aðskilnaðaröfl í Úkraínu hefur valdið mikilli hættu. Auðvitað eru átökin í Úkraínu skelfileg fyrir landsmenn þar en áhrifin eru víðar og það hefur leitt til þess að samskipti okkar og annarra vestrænna ríkja við Rússland hafa liðið fyrir.

Hæstv. utanríkisráðherra rakti ágætlega í ræðu sinni og í skýrslunni hvernig íslensk stjórnvöld hafa komið að þeim málum en það sem mestu máli skiptir í því sambandi er að Ísland hefur tekið sér skýra stöðu með bandamönnum sínum innan Atlantshafsbandalagsins og annarra ríkja sem við eigum samskipti við í hinum vestræna heimi gagnvart útþenslustefnu Rússa í Úkraínu. Sú lína hefur verið afskaplega skýr og ekki verið neinum vafa undirorpin. Það hefur ekki verið neitt vafamál hvar Ísland hefur tekið sér stöðu í því tafli. Þetta skiptir verulegu máli vegna þess, eins og hæstv. utanríkisráðherra rakti, að við eigum mikið undir því að þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist og aðrar þjóðir hafa undirgengist undir merkjum Atlantshafsbandalagsins haldi og um leið að reglur og sáttmálar á sviði alþjóðamála haldi. Þetta skiptir meðal annars máli vegna innlimunar Krímskaga í Rússland þar sem um var að ræða þá stöðu í fyrsta skipti í mjög langan tíma að landamærum í Evrópu var breytt undir byssukjöftum. Það skiptir verulegu máli að við tökum skýra afstöðu gegn slíkum aðgerðum og með sama hætti hljótum við að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að friðsamleg lausn fáist í málefnum Austur-Úkraínu þannig að fullveldi og landamæri séu virt. Þetta vildi ég undirstrika í upphafi umræðunnar.

Þessi mál hafa komið til okkar kasta með ýmsum hætti, m.a. eins og ráðherra rakti í samskiptum okkar við nánustu nágranna okkar meðal Norðurlandanna og vinaþjóða við Eystrasaltið sem að sumu leyti hafa upplifað stöðu sína með svipuðum hætti og gerist í Úkraínu. Þó er þar sá grundvallarmunur á að þessi ríki eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu og í krafti stöðu Atlantshafsbandalagsins njóta þau þar með meiri verndar því við verðum að líta svo á algerlega ótvírætt að 5. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans sem felur í sér að árás á eitt aðildarríki sé árás á þau öll feli í sér mikla vernd fyrir Eystrasaltslöndin. NATO hefur tekið þau skref og stjórnvöld hér á landi stutt þá viðleitni að viðbúnaður sé aukinn á þessum slóðum, fjölgað sé í loftrýmiseftirliti, gert tíðara að settar verði upp sérstakar sveitir sem geti brugðist við með stuttum fyrirvara o.s.frv. Eins hafa ríki Atlantshafsbandalagsins undirstrikað með skýrum hætti, m.a. á leiðtogafundinum í Wales síðasta haust, að 5. gr. haldi gagnvart þessu. Auðvitað hafa menn rætt og hafa áhyggjur af að nýjar aðferðir eða óhefðbundnar aðferðir í hernaði geti gert mörkin í þessum efnum óskýrari þegar ekki er um að ræða innrás af hálfu formlegra herja heldur hugsanlega stuðning við aðskilnaðaröfl, vopnasendingar, jafnvel sendingar svokallaðra sjálfboðaliða yfir landamæri og annað þess háttar. Það getur gert mörkin óskýrari. En það er mikilvægt að Atlantshafsbandalagsríkin taki skýra stöðu með þeim aðildarríkjum sínum sem geta verið í hættu og undirstriki að ekki séu vöflur á þeim við að koma þeim til hjálpar ef á þarf að halda. Það er gríðarlega mikilvægt.

Annað atriði sem tengist þessu eru aukin umsvif Rússa utan landamæra sinna, aukin umsvif í Norðurhöfum og þess háttar sem við hljótum að fylgjast með af mikilli athygli. Þar má nefna tíðari ferðir rússneskra herflugvéla, kafbáta og annarra stríðstóla utan hinna hefðbundnu svæða. Það er alveg ljóst að Rússar hafa á undanförnum missirum rekið harðari utanríkisstefnu en verið hefur um langt skeið og án þess að ég sé að spá hér eldi og brennisteini gerir það að verkum að við þurfum að vera á verði, við þurfum að efla varnir okkar í nærumhverfinu og við þurfum að huga að því hvernig varnarsamningurinn er framkvæmdur, hvernig þátttaka okkar í NATO er framkvæmd og við þurfum að huga að þeim nýju aðstæðum sem uppi eru í því sambandi.

Annað sem ég ætla rétt að drepa á er að ástandið fyrir botni Miðjarðarhafsins og raunar í Norður-Afríku líka hlýtur að vekja áhyggjur varðandi öryggismál. Uppgangur mjög herskárra og villimannslegra hryðjuverkasamtaka vekur mikinn óhug og sama má segja um aðgerðir sem framkvæmdar hafa verið af hálfu hryðjuverkasamtaka eða manna þeim tengdum eða a.m.k. manna sem taka undir málstað þeirra í okkar nánustu nágrannalöndum. Það vekur óhug og horfir til þess að við þurfum að huga að okkar eigin vörnum í því sambandi. Það er þá frekar um að ræða borgaralegar varnir sem að sumu leyti falla undir innanríkismál frekar en utanríkismál en er þó nauðsynlegt að nefna í þessu sambandi. Það sem snýr að utanríkismálum í því er fyrst og fremst mikilvægi þess að við eigum samstarf við nágranna- og bandalagsþjóðir um viðbrögð við aðgerðum af þessu tagi.

Ég nefni líka þann flóttamannavanda sem hefur skapast vegna stríðsátaka, borgarastyrjalda og hryðjuverka í löndum Miðausturlanda og Norður-Afríku. Flóttamannavandinn er meiri en við höfum séð áður og því miður er ástæða til að ætla að hann muni bara aukast á næstunni. Það er alveg ljóst að viðbrögð alþjóðasamfélagsins við flóttamannavandanum hafa verið ófullnægjandi og við þurfum að leggja okkar af mörkum í þeim efnum og við þurfum að leggja til okkar rödd á vettvangi alþjóðasamfélagsins til stuðnings þess að með virkari hætti verði komið til móts við vandann vegna þess að næstu nágrannaríki þeirra landa sem stríðsátökin geisa í hafa ekki nokkurt bolmagn til að mæta þeim mikla fjölda flóttamanna sem nú eru á ferðinni. Þetta vildi ég segja um hina alþjóðapólitísku þætti málsins og er þá ýmsu sleppt.

Tímans vegna verð ég einnig að fara örstutt yfir annað áherslumál sem hefur verið stöðugt til umfjöllunar hjá okkur í utanríkismálanefnd frá því að við komum til starfa í nefndinni fyrir tæpum tveimur árum og það eru EES-mál. Ég fagna auðvitað þeirri stefnu sem ríkisstjórnin samþykkti á síðasta ári um aukna og virkari þátttöku okkar í EES-samstarfinu. Við höfum unnið að því á vettvangi utanríkismálanefndar að slípa enn frekar það verklag sem snýr að þinginu í sambandi við afgreiðslu EES-mála en það sem blasir við í þeim efnum er að til þess að við getum nýtt okkur kosti EES-samstarfsins þurfum við bæði í þinginu og í stjórnkerfinu að vera betur á verði gagnvart málum sem eru í undirbúningi og uppsiglingu og koma með enn virkari hætti að þeim á fyrri stigum, einkum þegar um er að ræða mál sem hafa mikla hagsmuni fyrir okkur.

Ég er þeirrar skoðunar eins og aðrir sem hér hafa talað að EES-samningurinn sé afar mikilvægur fyrir okkur. Í störfum okkar rekum við okkur auðvitað stundum á vankanta á því fyrirkomulagi sem EES-samstarfið býður upp á. Þetta er langt í frá fullkominn samningur en ég hef metið það svo að hagsmunirnir sem felast í því að vera aðilar að EES séu meiri en ókostirnir, vegi þyngra en ókostirnir. Við þurfum hins vegar stöðugt að fara yfir þessa þætti og meta þá og þess vegna bíð ég spenntur eftir skýrslu eða greinargerð utanríkisráðuneytisins sem nú er í vinnslu um kosti og galla EES-samstarfsins. Ég held að hún muni gefa okkur góðan grunn til að taka þá umræðu í þinginu hvaða ávinning við höfum af samstarfinu, hverjir gallarnir eru og hvernig við getum hugsað okkur að nálgast þessi mál öðruvísi. Við eigum auðvitað ekki að einblína á EES-samninginn einan sem einu lausnina á okkar utanríkisviðskiptamálum, langt í frá. Við þurfum að huga að fríverslunarmöguleikum og við þurfum að huga að því með opnum huga hvernig við getum nýtt stöðu okkar utan Evrópusambandsins með sem skynsamlegustum hætti fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskan þjóðarhag. Mat á kostum og göllum EES-samningsins hlýtur að vera mikilvægt innlegg eða upphaf að slíkri umræðu.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum geta þess að ég tek undir þau orð sem hafa fallið í þessari umræðu að það er afar mikilvægt að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að efla tengsl okkar við Bandaríkin sem auðvitað breyttust töluvert mikið í kjölfar þess að ákveðið var að varnarliðið hyrfi héðan brott 2006. Það skiptir máli út frá öryggishagsmunum okkar en skiptir líka gríðarlega miklu máli út frá efnahagslegu tilliti og að báðum þáttum verðum við að huga og vinna að, bæði utanríkisráðherra, þingið og stjórnkerfið í heild.