144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[12:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðu hans þar sem hann kom inn á marga mikilvæga þætti sem gott er að ræða í umræðu um skýrslu utanríkisráðherra í utanríkis- og alþjóðamálum.

Mig langar að byrja á því að taka undir með hv. þingmanni um að ég hef miklar áhyggjur af aðgerðum Rússa í Úkraínu með innlimun á Krímskaga og tel að þær hafi ekki verið heimsfriðnum til gagns og hvað þá heldur íbúum Úkraínu. Á sama tíma hefur þróun undanfarinna ára líka verið sú að NATO hefur verið að færa áhrifasvæði sitt til austurs. Að mínu mati hefur sú útþenslustefna NATO til austurs síst orðið til að draga úr vilja eða getu þessara tveggja stórvelda til að halda frið á þessu svæði heldur eru bæði NATO og eins Rússar að sýna klærnar og hvers þeir eru megnugir. Ég tel það hafa mjög ógnvænlegar afleiðingar fyrir friðinn í heiminum. Mig langar þess vegna að spyrja hv. þingmann: Hvernig hugnast honum að við reynum einu sinni að líta til þess að leysa deilur með einhverju öðru en vopnavaldi þar sem stigmagnandi vígbúnaður hvort sínum megin víglínunnar verður? Hvernig finnst hv. þingmanni að reyna aðrar leiðir, að í staðinn fyrir að senda þarna inn þjálfaða hermenn, að senda til dæmis inn samningatæknimenn til að semja um frið?