144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[12:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að okkur hv. þingmann greinir á um hvort tryggja megi frið með vopnavaldi. Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan að ég er á engan hátt að mæla framferði Rússa nokkra bót enda tel ég það ekki vera hægt. Ég vil hins vegar halda því til haga að það er stór mótaðili þarna sem er NATO. Mér finnst mjög mikilvægt að við Íslendingar, sem erum reyndar aðildarríki að NATO en engu að síður herlaus þjóð, höfum við það alltaf mjög ofarlega í áherslum okkar að tala fyrir friði og friðsamlegum lausnum á meðan við erum í NATO. Ég teldi auðvitað best að við segðum okkur úr NATO og beittum beittum okkur fyrir friðsamlegum lausnum bara ein, en það er kannski umræða sem á ekki heima hér akkúrat núna.

En það var annað mjög mikilvægt málefni sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni og það er flóttamannavandinn. Ég er hv. þingmanni hjartanlega sammála um að það er vandi sem á eftir að vaxa og hafa áhrif á alla íbúa jarðarinnar. Við höfum staðið okkur ágætlega með Landhelgisgæslunni við að bjarga flóttafólki frá bráðum bana á Miðjarðarhafi og það er auðvitað frábært. En mig langar að vita hver sýn hv. þingmanns er á eftirfarandi: Þyrftum við ekki að taka stærri hluta þessara flóttamanna hingað til okkar og veita þeim skjól hér til langtíma en ekki bara bjarga þeim úr bráðri lífshættu á hafinu?