144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[12:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í ljósi þess hversu fáir eru eftir í þessum sölum sem eru eldheitir stuðningsmenn þess að rækta sambandið við Bandaríkin verð ég að segja að þrátt fyrir lokaorðin í ræðu hv. þingmanns þá undraði það mig svolítið hversu lítil áhersla var á það mál í ræðu hans. En það er kannski tímanna tákn.

Það er tvennt sem ég vildi gjarnan ræða við hv. þingmann. Við erum sammála um að í núverandi stöðu er mjög mikilvægt að leggja ríka áherslu á að rækta EES-samninginn og framfylgja honum sem best. En í ljósi þess hvernig fyrrverandi ráðuneytisstjóri ráðuneytisins og æðsti maður okkur hjá ESA hefur talað um rekstur samningsins, í ljósi þess hvernig hæstv. utanríkisráðherra upplýsti formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um það áðan að í það eru engir peningar ætlaðir, umfram það sem nú er, til að bæta það og í ljósi ummæla hv. þingmanns, um að nauðsynlegt væri að koma fyrr að málum í Brussel, spyr ég hann í fyrsta lagi: Er ekki ráðlegt fyrir okkur í utanríkismálanefnd að beita okkur með sterkari hætti til að reyna að tryggja hagsmuni Íslands fyrst ríkisstjórnin er ekki að gera það? Í öðru lagi: Eigum við ekki að fá til fundar við okkur Sverri Hauk Gunnlaugsson, hann er hér á landinu, til að ræða þessi mál við okkur? Í þriðja lagi: Þarf nefndin ekki að gera sjálfstæða úttekt á því hvernig framkvæmdarvaldið rækir þetta og hvað vantar þar upp á?

Það er alveg ljóst að hv. þingmaður virtist vera sammála Sverri Hauki Gunnlaugssyni um að ráðherranum væri féskylft og hann viðurkennir sjálfur að hann hefur ekki afl til að sækja það fé sem þarf til að hægt sé að standa vel að þessum miklu hagsmunum okkar.

Síðari spurninguna geymi ég þangað til í seinna andsvari mínu.