144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[12:44]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka sérstaklega fyrir þessa umræðu og þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrsluna og ræðuna, hvort tveggja að mörgu leyti mjög góð og gagnleg plögg. Ég þakka sömuleiðis þeim hv. þingmönnum sem hafa komið á undan fyrir góða umræðu og ég hlakka til að eiga góða og uppbyggilega umræðu um utanríkismál í dag.

Ég vil taka fram að í ræðu minni ætla ég fyrst og fremst fjalla um skýrsluna og gera ekki framhald á umræðum um utanríkismál og Evrópumál sem hafa staðið hérna síðustu daga nema að því leytinu til að ég hvet í beinu framhaldi af umræðum á þingi í vikunni hæstv. ráðherra og okkur öll á hinu háa Alþingi til að efla samstarf okkar, tryggja sameiginlegan skilning okkar á þingræðinu og að við náum sameiginlegum skilningi á gildi þingsályktana á næstu dögum og vikum. Ég geri ráð fyrir mikilli umræðu þar um á þinginu og í nefndum þingsins. Að því leyti til er ég sammála hæstv. utanríkisráðherra úr umræðunni, í gær ef ég man rétt, að það sé óhentugt og geti verið mjög óþægilegt að það sé háð mati — og þá mati hvers? — hver samráðsskylda við hv. utanríkismálanefnd sé og hvenær það samráð eigi að fara fram.

Að þessu sögðu hyggst ég fyrst og fremst ræða um grunnatriði. Ég vil að ræða mín sé til hvatningar hæstv. ráðherra og þó að í því kunni að felast einhver gagnrýni vil ég taka fram að hún skal vera uppbyggileg.

Fyrst vil ég aðeins taka til þess að utanríkismál skipta okkur Íslendinga mjög miklu máli. Ég hef áhyggjur af því að þá sjaldan sem utanríkismál koma í raun og veru til umræðu, miðað við mikilvægi þeirra, bæði á þingi en líka í opinberri umræðu, er horft á utanríkismál með tilliti til þess að þau eigi vissulega að verja hagsmuni Íslands en það er gjarnan komið að málunum út frá stöðu þiggjandans, að Ísland sé lítið og kraftlaust land sem megi sín lítils í hinum stóra heimi og okkar hlutverk sé fyrst og fremst að fá að vera með og fá að tína bestu molana úr. Hlutverk okkar sem gefanda eða hlutverk þessarar litlu þjóðar til að geta haft uppbyggilegt innlegg í heimsmálin verður oft út undan og í allt of mörgum tilvikum er í krafti smæðar látið eins og við höfum ekkert að gefa.

Mig langar til að minna hæstv. ráðherra og okkur öll á að þrátt fyrir smæð hafa áhrif Íslendinga verið langt umfram stærð, sérstaklega í ákveðnum málaflokkum þar sem við höfum beitt okkur sérstaklega og haft kannski sérstaka þekkingu umfram aðra. Þá er ég að hugsa um málaflokka eins og nýtingu jarðvarma og jafnréttismál. Ísland hefur í utanríkisstefnu sinni gjarnan lagt sérstaka áherslu á jafnréttismál og kvenréttindamál og átt heilmikið og mikilvægt innlegg í þá umræðu á heimsvísu. Ég tel mjög mikilvægt að Ísland haldi því áfram og hvet hæstv. ráðherra til dáða í þeim efnum. Sömuleiðis tel ég að Ísland hafi mikilvægu hlutverki að gegna í umræðu um umhverfismál á heimsvísu og þá ekki bara sem eltitík í heimsaðgerðum stóru þjóðanna til að stemma til að mynda á móti loftslagsbreytingum heldur líka hreinlega sem gerandi. Ég held að það sé mikilvægt í allri okkar utanríkispólitík og því hvernig Íslendingar koma fram á alþjóðavettvangi að við hugsum til þess hve mikilvæg umhverfismálin eru okkur og hvað allt okkar hagkerfi og hagsæld sem við búum við á þessari norðlægu eyju byggir á því að umhverfismálin séu í lagi, að hafið í kringum landið sé áfram hreint og gjöfult. Það eru því miður stór merki í heiminum þegar kemur að sérstökum loftslagsbreytingum, breytingum í hafinu o.s.frv. sem gætu haft óvenjumikil áhrif og meiri áhrif hér en annars staðar. Þetta er sjónarhorn sem ég hef saknað dálítið í umræðu okkar og áherslum í norðurslóðamálum vegna þess að þar hefur gjarnan verið talað um norðurslóðir sem svæði tækifæranna og lögð mikil áhersla á vinnslu auðlinda, auknar siglingar o.s.frv. en það skiptir ekki síður máli fyrir Íslendinga að huga að mögulegum umhverfisáhrifum og hafa áhrif á að umhverfisþátturinn sé helst í fyrsta sæti þegar kemur að umræðum um norðurslóðir.

Ég vil taka aðeins upp þráðinn sem aðrir hv. þingmenn hafa komið inn á, það er leiðinlegt að sjá og kemur nú aðeins fram í skýrslunni hversu mikið hefur þrengt fjárhagslega að því mikilvæga starfi og þeim mikilvægu stofnunum sem utanríkisráðuneytið og utanríkisþjónustan er. Það kemur fram að á árunum 2012–2014, ef ég man rétt, hafi stöðugildum fækkað um 60. Við vitum að miklar tennur hafa verið dregnar úr þýðingarmiðstöðinni og ég hef áhyggjur af því að þetta geri okkur erfitt fyrir, þýði að það verði erfiðara að sinna öllum verkefnum, að stjórnsýsluleg geta okkar líði fyrir en um leið vil ég þakka auðvitað sérstaklega þau kraftaverk sem hafa verið unnin af ráðuneytinu og starfsmönnum utanríkisþjónustunnar. Það er alveg magnað hvað við náum að sinna miklu í einu.

Mig langaði aðeins til að koma betur inn í þær áherslur sem ég minntist á, áherslur Íslendinga í utanríkismálum. Í flestum löndum ríkir nokkuð breið sátt um utanríkisstefnu. Ég segi nú ekki að það sé endilega alltaf þverpólitísk samstaða en að minnsta kosti breið pólitísk samstaða um stóru línurnar í utanríkismálum. Það verður að viðurkennast að það eru sennilega ekki miklar líkur til að það verði breið sátt um Evrópumálin á Íslandi í nánustu framtíð þótt ég reikni fastlega með því að innan 16–18 mánaða eða svo verði allir orðnir sammála. Ég er náttúrlega þekktur bjartsýnismaður.

Að öðru leyti held ég að það sé mikil og breið pólitísk samstaða um ákveðna grunnpunkta í utanríkisstefnu Íslands, áhersla á mannréttindi, áhersla á jafnrétti, áhersla á að unnið verði að friðsamlegri samskiptum, að friði á jörðinni og í okkar nánasta umhverfi, bæði út frá stöðu okkar sem herlausrar þjóðar en líka út frá samvinnu okkar við okkar nánustu vinaþjóðir og nágrannaþjóðir.

Ég vil leggja áherslu á að það skiptir miklu máli að það sé skýrt í utanríkisstefnu Íslendinga að við stöndum fyrir mannréttindi, að við stöndum fyrir virðingu í samskiptum á milli þjóða og milli manna almennt óháð uppruna, kyni og efnahagslegri stöðu. Þar held ég að við getum haft stærra og uppbyggilegra hlutverk en bara að vera litli bróðirinn í stærri samböndum á borð við Norður-Atlantshafsbandalagið. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í því efni og minni hann á hvað hæstv. ráðherra og svo sem forverar hans hafa staðið sig vel í að hafa áhrif á umræðuna, t.d. um málefni Palestínu og málefni Úkraínu þar sem ég tel að hæstv. ráðherra hafi staðið sig mjög vel.

Ég ætla ekki að fara fram úr mér og ræða um málefni Þróunarsamvinnustofnunar þar sem umræða um frumvarp sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram er væntanleg. Ég tek undir umræðu sem hefur aðeins komið fram hérna hjá hv. þingmönnum á undan mér og það er breytt staða flóttamanna í heiminum, ekki síst í nánasta umhverfi okkar. Við megum ekki gleyma því að meðan Ísland er meðlimur í Schengen-samstarfinu eru landamæri okkar í Miðjarðarhafinu miðju og við erum þátttakendur í starfinu þar. Við vitum að út af ófriði í Miðausturlöndum, stríðinu í Sýrlandi o.s.frv. eru milljónir ofan á milljónir manna komnar á vergang. Maður hefur heyrt þá staðhæfingu að fleiri séu á vergangi núna en nokkru sinni frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Það á að minnsta kosti örugglega við í okkar umhverfi þannig að það skiptir miklu máli að Ísland styðji við og leggi sitt lóð á vogarskálarnar við að reyna að lægja þessa ófriðaröldu. Það skiptir líka máli að muna að flóttamenn eru ekki einungis að flýja stríð eða átök, flóttamenn eru einnig að flýja ömurlega stöðu. Á bak við milljónir flóttamanna eru milljónir einstaklinga. Hver einstaklingur sem leggur á flótta hefur sínar ástæður til. Það er ekki síst léleg staða mannréttinda í heimalandinu eða efnahagsleg staða sem er hluti af þeirri misskiptingu auðs og tækifæra sem því miður er enn áberandi á þessari jörð. Eftir því sem jörðin verður minni þannig séð með auknum samgöngum og auknum upplýsingum um jörðina er ekkert skrýtið við að það komi meira flot á fólk. Við sem búum við mestu hagsæld og bestu aðstæður hér á norðurhluta jarðarinnar berum ekki bara ábyrgð á því að reyna að taka eins vel og við getum á móti þeim sem hingað komast heldur líka að berjast gegn því sem veldur flóttanum. Eins og ég segi geta verið átök en það getur líka verið staða í mannréttindum og það er engin spurning að misskipting auðs um jarðarkúluna er ein af stóru ástæðunum.

Því vil ég líka nota þetta tækifæri til að hvetja hæstv. utanríkisráðherra og hv. Alþingi til að gera betur í því að taka á móti flóttamönnum. Ég var á Evrópusambandsráðstefnu þar sem kom fram að af þeim flóttamönnum sem hafa komið bara út af stríðinu frá Sýrlandi hafa 70% endað í Þýskalandi og Svíþjóð, bara þessum tveimur löndum. Það er vissulega rétt hjá hv. formanni utanríkismálanefndar að Íslendingar taka seint við mörgum milljónum flóttamanna, þótt það gæti verið athyglisvert, þannig að allt sem við gerum er táknrænt en fyrir þá einstaklinga sem við tökum á móti er það mikilvægt. Ég tel mikilvægt að við setjum okkur skýra stefnu um að taka á móti fleiri kvótaflóttamönnum bæði til að standa okkur í stykkinu og auka getu okkar og kerfi í því að taka á móti flóttamönnum og gera þá að hluta af okkar samfélagi sem ég held að væri bæði gott innlegg fyrir okkar samfélag og almennt á jörðinni. (Forseti hringir.)

Verum ekki bara þiggjandi heldur gefandi, leggjum áherslu á mannréttindi og umhverfismál og tökum það sem er vel gert og gerum það betur.