144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[13:02]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ég tek undir með honum að vissulega er bráðasti flóttamannavandinn vegna átaka. Síðasta tala sem ég heyrði um flóttamenn á vergangi bara frá Sýrlandi var 3.275.000. Það segir sig sjálft að þar er bráðavandinn og auðvitað verðum við að taka á honum og standa okkur vel þar. Þó svo að þátttaka Landhelgisgæslunnar íslensku í Miðjarðarhafinu sé lofsverð og mjög mikilvæg þurfum við líka að hugsa um hvað við erum að gera hérna heima þegar kemur að þessum málum.

Ég tel það jákvætt að hv. þingmaður hafi tekið undir ræðu mína um að sátt ríki um margt í utanríkismálum og utanríkisstefnu Íslendinga, en í ræðu minni kom kannski ekki nógu skýrt fram að ég vildi hvetja hæstv. utanríkisráðherra til dáða vegna þess að þó svo að við höfum lagt og séum sammála um að leggja mikla áherslu á mannréttindi, á jafnrétti, á umhverfismál, þá hef ég áhyggjur af því að áherslan hafi aðeins minnkað hjá okkur í praxís. Og núna þegar 20 ár eru frá kvennaráðstefnunni í Peking og 15 ár liðin frá því ályktun 1325 öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi, þá finnst mér sorglegt að sjá að það lítur út fyrir að við höfum aðeins minnkað áherslur okkar eða í það minnsta erum við að leggja til minna fjármagn og minni áherslu í okkar störfum í þá átt. Ég vildi líta á þetta sem hvatningu.

Varðandi Atlantshafsbandalagið og þátttöku Íslands verð ég að koma að því í seinna andsvari.