144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[13:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að botna það sem ég ætlaði að segja áðan, ef við lítum raunsætt á hlutina er í dag aðeins eitt verulegt ágreiningsefni í sambandi við mörkun utanríkisstefnu okkar, verulegt grundvallarágreiningsefni. Það er spurningin um aðild okkar að Evrópusambandinu. Auðvitað breytir það ekki því að í meginatriðum erum við sammála um stefnuna á öðrum sviðum, en óhjákvæmilega mun þessi ágreiningur lita mjög, hvað eigum við að segja, umræður okkar um utanríkismál á næstunni. Ég vildi nefna það hér. Þó að stundum séu Evrópumálin á mörkum utanríkismála og innanríkismála, þá er það í dag meginspurningin um hvaða stefnu við viljum taka varðandi tengingu okkar við nágrannaríkin eða okkar næstu nágranna, hvort við teljum hagsmunum okkar betur borgið innan Evrópusambandsins eða utan. Það hefur hins vegar fengið og mun fá umræðu undir ýmsum öðrum dagskrárliðum í störfum hins háa Alþingis þannig að ég ætla ekki að dvelja lengur við það.

Ég ætla aðeins að bæta því við í sambandi við flóttamannavandann að við horfum mjög á ástandið við Miðjarðarhafið, bæði Norður-Afríku og Mið-Austurlönd núna vegna þeirrar sprengingar sem hefur orðið í fjölda flóttamanna á þeim slóðum. Þar er gríðarlega mikil gerjun í gangi og mikil upplausn í mörgum löndum sem ekki sér fyrir endann á. Það veldur flóttamannastraumi. Það veldur líka aukinni hryðjuverkahættu (Forseti hringir.) og veldur því miður víða í þessum löndum uppgangi mjög öfgasinnaðra hópa sem eru per se veruleg ógn við (Forseti hringir.) ekki bara sitt nánasta umhverfi heldur líka okkur hér á Vesturlöndum.