144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[13:07]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Ég tek undir það að við lifum á sérstökum tímum og ef það er eitthvað sem er öruggt á okkar tíma er að tímarnir eru mikið að breytast. Það er margt bæði innan lands og hnattrænt sem er ekki bara að breytast eitthvað smá heldur mun breytast í grundvallaratriðum á næstu árum eða áratugum. Þegar við tölum um flóttamannavandann er hann vissulega mestur vegna átaka núna, en við þurfum ekki að horfa lengra aftur en til millistríðsáranna í Bandaríkjunum, sögunnar sem við þekkjum úr bókinni Þrúgur reiðinnar eftir John Steinbeck, þar sem stór hluti Bandaríkjamanna úr miðríkjunum flosnaði upp vegna þurrka. Ég held að áhrif loftslagsbreytinga munu hafa mikil áhrif á næstu áratugum þannig að við þurfum að horfa á þau mál í þessu samhengi líka.

Varðandi hryðjuverkaógn, aukin átök og hvernig þau færast á milli landa og svæða, ég get tekið undir það að augljóst er að það er að gerast. Þetta er ekki bara eitthvað sem við þurfum að vera meðvituð um og meðvituð um að við erum hluti af umheiminum, heldur þurfum við líka að átta okkur á því hvaðan þetta kemur. Þetta er auðvitað afsprengi átaka og líka misskiptingar bæði auðs og valda á jarðarkringlunni og innan landa.

Rétt af því hv. þingmaður minntist á NATO í fyrra andsvari þá held ég að það ríki kannski ekki fullkomin sátt um veru Íslands í Norður-Atlantshafsbandalaginu þó svo að það heyrist minna af því þegar NATO er minna í umræðunni (Forseti hringir.) og eftir að bandaríski herinn fór af Miðnesheiði, en sú umræða kemur auðvitað upp þegar Íslendingar hafa tekið (Forseti hringir.) þátt í eða stutt við hernaðaraðgerðir (Forseti hringir.) NATO þannig að sú umræða heldur áfram.