144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[13:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir fór víða í sinni góðu ræðu og um margt var ég henni sammála. Hún ræddi meðal annars þróunarmálin og gat þess að hún hefði gjarnan viljað sjá Ísland leggja meira til þeirra en landið gerir í dag. Það er rétt að rifja upp að ekki var þessi ríkisstjórn mjög gömul þegar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir var sett yfir niðurskurðarnefnd og hún skar niður fé til þróunarmála með góðu samþykki hæstv. utanríkisráðherra, að minnsta kosti hér í atkvæðagreiðslum í þinginu, um upphæð sem svarar í dag til 2,3 milljarða kr. Það er töluvert hátt. Ég rifja það líka upp í framhjáhlaupi fyrir hv. þingmanni að í viðtali sagði hún að þetta væri bara byrjunin. Við höfum séð hv. þingmann standa við orð sín því að í framhaldi er það nú orðin stefna hæstv. utanríkisráðherra, þó að hann hafi hvergi getið þess í ræðu sinni fyrr í dag, að slá af Þróunarsamvinnustofnun. Hæstv. ráðherra sagði líka í ræðu sinni að það væri óskandi að Íslendingar gætu lagt meira af höndum þegar betur stæði á hjá okkur. Þá ætla ég að rifja það upp að nú voru upplýsingar sem komu fram í vikunni sem bentu til þess að landsframleiðsla, og við miðum við landsframleiðslu um framlög til þróunarmála, yrði á næsta ári hærri en 2007 sem var þó bóluárið mikla. Þá spyr ég hv. þingmann: Hvað finnst henni þá um frammistöðu hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar hvað varðar fjárveitingar til þróunarmála? Og ef ég má í fyllstu vinsemd og virðingu í framhjáhlaupi líka biðja hv. þingmann um skoðun hennar, ef hún hefur mótað hana nú þegar, á fyrirætlaninni um að leggja af Þróunarsamvinnustofnun.