144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[14:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sem betur fer er það ekki algilt. Upp í hugann koma nöfn tveggja ríkustu einstaklinga í heimi eða í þeim hópi, Bill Gates, sem gefur mest af sínum auði til þess að styðja uppbyggingu í Afríku, og Warren Buffet sem fetað hefur sömu slóð.

En ef við höldum okkur við ríki er það eigi að síður þannig að stöndug ríki í grennd við Ísland sem við teljum okkur oft jafningja hvað varðar viðhorf og mannréttindi, standa sig miklu betur. Öll Norðurlöndin standa sig margfalt betur en Ísland, að minnsta kosti tvöfalt, jafnvel meira en það. Ég nefni Svíþjóð, Finnland, Noreg, Danmörku. Ef ég tek land eins og Bretland sem gekk sannarlega í gegnum erfiða hluti líka, kreppti að í fjármálalífi þeirra. Samt sem áður gáfu þeir í í tilteknum geirum, til dæmis á meðan þrengst var og mestur niðurskurður var þar fór íhaldsstjórnin í Bretlandi í sérstaka herferð í Afríku til að bólusetja börn gegn malaríu og annarri óáran. Ég tek það sem dæmi.

Ef ég nefni annað ríki, Írland, sem lenti eins og við í basli, í mjög svipaðri stöðu og við, það greiðir í dag sem svarar 0,46% eða 0,47% af landsframleiðslu í þróunarsamvinnu og ætlar sér ekki að fara neðar, það er byrjað að fara upp á við. Við erum að fara niður á við, við erum um það bil 0,22%. Ef menn vilja vera góðir getum við komist upp í 0,23% af landsframleiðslu. Það er munurinn á okkur og þeim en við erum samt sem áður auðugri ef miðað er við hvern einstakling. Sýnir þetta ekki nánasarhátt og ákveðinn skort á virðingu fyrir þeim mannslífum sem eru í háska vegna þess að gæðum heimsins er svo misskipt?