144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[14:55]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ágætisandsvar og ágætt að ég fái tilefni til að svara því hér.

Ég tek undir þau orð sem hann lét falla hér áðan og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir ræddi einnig um Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar. Ég er sammála því að við þurfum að setjast yfir það og fara yfir þá hluti og sjá hvort við getum gert betur. Það er okkar vinna að verja hagsmuni Íslands og tryggja þá á öllum sviðum.

Varðandi þessa þingsályktunartillögu að ég held frá 2011 þá verð ég nú að viðurkenna það sem nýr þingmaður, þó ég hafi nú setið í tæplega tvö ár, að ég er ekki búin að lesa hana en hef séð þær setningar sem hv. þingmaður vísar til. Þrátt fyrir að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sé lærður lögfræðingur virðist svo vera sem lögfræðiþekkingin hafi ekki náð yfir gildi þingsályktunartillagna vegna þess að síðustu daga höfum við séð í fjölmiðlum, og einnig hafa verið lagðar fram hér á skrifstofu Alþingis, lögfræðilegar greinargerðir um gildi þingsályktunartillagna. Þær eru ekki lagalega bindandi.

Ég er ekki lögfræðingur. Ég hyggst ekki koma með lögfræðilegt persónulegt mat hér í þessum ræðustól en vísa til þeirra lögfræðiálita sem við höfum öll lesið síðastliðna daga.