144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[15:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru að ýmsu leyti skýr svör sem ég þakka hv. þingmanni fyrir. Hugsanlega mætti segja að svar vantaði við síðari spurningu minni en ég ætla ekki að ganga eftir því. Það nægir mér að heyra afstöðu hv. þingmanns til málaflokksins, mér þykir vænt um það. Ég mundi gefa henni þann dóm að hún væri heiðarleg íhaldsmanneskja af bestu sort. Ég fell oft í þá gryfju að dæma sjálfstæðismenn út frá afstöðu þeirra til þróunarmála, vegna þess að það er oft og tíðum erfitt að móta sér afstöðu til þeirra og gera það af örlátum huga. En mér fannst það glæsilegt hjá hv. þingmanni að segja að við eigum ekki að vera eftirbátar þeirra þjóða sem við berum okkur yfirleitt saman við og mundi þá leyfa mér með skapandi túlkun að segja að henni fyndist að við ættum að liggja einhvers staðar á milli Írlands og Norðurlandanna, „fair enough“, með leyfi forseta. Það er bara mjög gott.