144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[15:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. utanríkisráðherra svarar fyrir utanríkisstefnu íslenska ríkisins. En bara til að ég hafi þetta algjörlega á hreinu þá er hv. þm. Ögmundur Jónasson þeirrar skoðunar að Rússar séu í fullum rétti að innlima Krím? Það er mikilvægt fyrir umræðuna að það liggi alveg ljóst fyrir.

Sömuleiðis langar mig til að inna hv. þingmann aðeins eftir störfum sínum í Evrópuráðinu. Annar hv. þingmaður, Karl Garðarsson, hefur þegar lýst afstöðu sinni til þess að Rússum var vísað tímabundið úr starfi ráðsins og sá hv. þingmaður lýsti því líka að hann væri fylgjandi því að það bann við rússneskri þátttöku hefði verið framlengt. Af því að hv. þingmaður Ögmundur Jónasson situr þar líka langar mig til að spyrja hann: Hvaða afstöðu hefur hann til þess? Var hann þeirrar skoðunar að það væri í lagi að vísa Rússum úr eða er uppi harður ágreiningur innan Íslandsdeildarinnar um með hvaða hætti á að taka á þessu? Og ég rifja upp, sögunnar vegna, að það væri þá ekki í fyrsta skipti sem Íslandsdeild Evrópuráðsins klofnar, að ég ekki segi í herðar en að minnsta kosti í rót niður vegna afstöðunnar til Rússlands.