144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[15:51]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði aldrei að Rússar væru í fullum rétti að innlima Krím, ég hef aldrei sagt það. Ég hef skrifað um hið gagnstæða, að það ætti ekki að ráðast í gjörð af þessu tagi undir vopnum, ég hef fordæmt það, ég hef margoft gert það í skrifum mínum. En það á enginn að gera það, ekki heldur Úkraínumenn og ekki heldur vesturveldin og ekki heldur NATO sem hafa tekið undir með þeim aðilum í Úkraínu sem hafa lagst til dæmis gegn því að þar verði sett á laggirnar sambandsríki eða eitthvert form á sambandsríki. Meira að segja í Evrópuráðinu, á þingi Evrópuráðsins, var tillögu hafnað þar að lútandi. Þetta á að vera málefni þessa svæðis og þessa ríkis og þessarar þjóðar á sama hátt og Þjóðverjar búa við sambandsríki, Bandaríkjamenn gera það líka, Kanada gerir það og fjölda annarra ríkja má nefna sem eru sambandsríki, t.d. Mexíkó. Nei, nei, Evrópusambandið og því miður þing Evrópuráðsins hafa tekið afstöðu í þessum málum.

Að sjálfsögðu á ekki að reka Rússa úr Evrópuráðinu. Evrópuráðið og þing Evrópuráðsins eru tæki fólksins gegn ríkisstjórnum, 144 milljóna Rússa gegn sinni stjórn. Þegar Pussy Riot ætlar að sækja rétt sinn fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu í Strassburg, þá er það í gegnum Evrópuráðið. Við erum að svipta þetta fólk réttinum, það er það sem er að gerast, þegar við vísum því þarna út. Og að heyra mennina hása, fulltrúa þeirra þjóða sem réðust inn í Írak á sínum tíma, tala eins og gert hefur verið í kaldastríðstóni síðustu vikur og mánuði á þingi Evrópuráðsins, það er áhyggjuefni, finnst mér. Það er mikið áhyggjuefni.