144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[16:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef haft það markmið að reyna að vera samkvæmur sjálfum mér. Ég skil vel fólk sem er hætt að skilja íslenska stjórnmálamenn og jafnvel gefast upp á okkur stjórnmálamönnum þegar maður heyrir að Samfylkingin og VG, sem hafa ásakað Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa ekki staðið við yfirlýsingar forustumanns hans, heimta það að sú leið verði farin. Sem var ekki stefna Samfylkingar og VG. Reyndar var það þannig að þau höfnuðu því að fara þá leið þegar upp á það var boðið á síðasta þingi. Ég greiddi atkvæði þá með þeirri leið með þeim orðum og þeim rökum að ég mundi gera hvað ég gæti til að koma í veg fyrir að Ísland mundi gerast aðili að Evrópusambandinu og þó svo að það væri mér þvert um hug að fara þá leið gerði ég undanþágu á því vegna þess að ég tel hagsmunum Íslendinga miklu betur borgið fyrir utan Evrópusambandið. Ég hvatti hins vegar síðustu ríkisstjórn, ég man ekki hvort það var neinn annar sem gerði það sem er ekki fylgjandi inngöngu, sem í orði kveðnu væntanlega vildi ganga í Evrópusambandið til að klára þá samninga, til að ganga frá því og koma með það fyrir þjóðina.

Það versta í þessu máli er að við getum ekki einu sinni komið okkur saman um einhverja aðferðafræði. Við erum enn þá að takast á um formið. Þegar það var kynnt á síðasta kjörtímabili var okkur sagt að það tæki 18 mánuði að klára aðildarferlið. Það var það sem fyrrverandi hæstv. ráðherrar sögðu. Ég taldi eðlilegt að menn kæmu þá með samninginn og þjóðin mundi greiða atkvæði um hann og hlakkaði mikið til þeirrar baráttu. Mér fyndist það vera mjög upplýsandi, af því að ég er að tala um að takast á um staðreyndir, og mjög gott að fá staðreyndirnar á borðið. Af hverju gekk þetta ekki á 18 mánuðum? Ég sat í hv. utanríkismálanefnd og spurðist fyrir um það hvað eftir annað. Ég fékk engin alvörurök fyrir því af hverju þetta gekk ekki síðast. Ég held að mjög upplýsandi væri að (Forseti hringir.) fá þær upplýsingar. Hv. þingmaður þekkir þetta mál betur en nokkurt annað.