144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[16:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom hér inn á mikilvægt svið sem er að sumu leyti nýtt í þessu samhengi alþjóðamálanna. Auðvitað hefur vitund verið að vaxa um þær hættur sem falist geta í netárásum af ýmsu tagi. Menn þekkja hættur af skemmdarverkastarfsemi, aðgerðum af hálfu skipulagðra glæpasamtaka og jafnvel hryðjuverkahópa og síðan, eins og hv. þingmaður nefnir, þá hættu sem er fyrir hendi að ríki beiti þessari tækni til þess að ná fram markmiðum sem geta verið hernaðarleg. Menn hafa jafnvel þóst sjá raunhæf merki um það þó að það hafi kannski ekki verið í beinum tengslum við hernaðarátök, en þó hafa ákveðnar netárásir verið raktar til einstakra ríkja á undanförnum árum.

Ég veit að hv. þingmaður þekkir vel til þessa sviðs og vil því biðja hann um að halda aðeins áfram frá þeim punkti þar sem hann nam staðar í ræðu sinni áðan varðandi hvaða raunhæfu aðgerðir væru að hans mati æskilegastar fyrir okkur í þeirri stöðu sem hann lýsir. Hann lýsir ákveðinni tortryggni gagnvart sumum af bandamönnum okkar í hinu alþjóðapólitíska tafli en talar um aukið samstarf við Norðurlönd. (Forseti hringir.) En ef við horfum á bara stofnanir okkar, skipulag okkar, (Forseti hringir.) hvar þyrftum við að mati hv. þingmanns að bæta okkur þannig að það gerði eitthvert gagn?